Hausnum barið við steininn
„Ég skil ekkert í þessu önuglyndi framkvæmdastjóra FÍB,“ segir Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri Metanorku í samtali við Fréttatímann í dag og í sama streng tekur Björn Haraldsson framkvæmdastjóri Sorpu í fréttinni.
Þetta eru í stórum dráttum svör þeirra félaga við gagnrýni FÍB á framgöngu kjörinna fulltrúa almennings á höfuðborgarsvæðinu og stjórnenda metanmála. Viðbrögðin lýsa vel því að þeir Dofri og Björn vita fyllilega hvernig málum er komið. Þeir vita að haugarnir í Álfsnesi anna vart eftirspurn lengur, áfylling á bifreiðar á aðal metaafgreiðslustöðinni á Bíldshöfða er mjög seinleg vegna gasskorts og gæði eldsneytisins afar misjöfn. Þeir vita líka, eins og Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi og stjórnarformaður Sorpu, að ef ekki verði byggð gasgerðarstöð hið bráðasta verður gasið í Álfsneshaugunum á þrotum fyrir lok næsta árs. Til að freista þess að dreifa athygli almennings - vinnuveitenda sinna - frá þessum napra veruleika kjósa gasbísnessmennirnir Dofri og Björn að fjasa um meint skapferli framkvæmdastjóra FÍB. Það er fremur dapurlegt.
Búast hefði mátt við því að hálfu þessara manna að þeir fögnuðu þeim árangri sem þegar hefur náðst varðandi fjölda ökutækja sem nýta þessa auðlind og tækju undir áhyggjur FÍB af gasskorti í náinni framtíð
Það stendur til að opna gasgerðarstöð í Álfsnesi á næsta ári og þá kemst gasframleiðslan í lag segja þeir Dofri og Björn eins og stjórnarformaðurinn Oddný segir í Fréttablaðinu í gær. Aðrar tvær stöðvar eru líka fyrirhugaðar í Melasveit og á Akureyri. Gott og vel en hve langt eru þær fyrirætlanir komnar? Eru þær komnar nógu langt til þess að fyrirsjáanleg gasþurrð á næsta ári verði ekki? Nei. Því miður.
Fyrirhuguð gasgerðarstöð í Álfsnesi sem skiptir einna mestu máli fyrir höfuðborgarsvæðið og er forsenda þess að til verði gas á þá metanbíla sem þegar eru í umferð upp úr miðju næsta ári. Þessi stöð getur ekki orðið tilbúin um mitt næsta ár. Það er ísköld staðreynd af eftirfarandi ástæðum:
- Íbúar Mosfellsbæjar hafa mótmælt staðsetningu hennar í Álfsnesi vegna lyktarmengunar. Meðan staðsetning sjálfra hauganna og fyrirhugaðrar gasgerðarstöðvar þar eru í óvissu verður staðsetningarmálið ekki útkljáð. Fleiri mánuði og jafnvel ár getur tekið að fá niðurstöðu í þessu máli. Ennfremur munu fá ár vera eftir af starfsleyfi Álfsneshauganna og alls ekki útséð með að því verði framlengt.
- En Oddný Sturludóttir fullyrðir í Fréttablaðinu í gær að stöðin muni rísa í Álfsnesi og muni kosta tvo milljarða króna. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu – eigendur Sorpu hafa ekki slíka fjármuni handbæra. Fjármögnun stöðvarinnar er því ekki einu sinni hafin en hún gæti tekið fleiri mánuði, jafnvel ár. Þá er eftir að hanna stöðina, bjóða verkið út og síðan gangsetja. Það mun taka minnst eitt ár og ef til vill fleiri.
Af framansögðu ætti það að vera flestum ljóst að minnst tvö til þrjú ár eru í það að gasgerðarstöð í Álfsnesi komist í gagnið ef hún á annað borð fær að rísa þar. Það er því nánast óhjákvæmilegt að það stefnir í stórvanda strax næsta sumar í þessum efnum. Það vita þeir Dofri og Björn framkvæmdastjóri Sorpu auðvitað fullvel. En framkvæmdastjórinn ber hausnum við steininn og segir við Fréttatímann: „Ég skil ekkert í þessu fýlukasti (framkvstj. FÍB). Við munum koma til með að standa fyllilega við orð okkar og þjónusta um 4.000 smábíla úr Álfsnesi, en nú eru þeir aðeins um tólf hundruð.“
Það er hraustlega mælt.