Hefja sölu á Xpeng á Íslandi
Bílaumboðið Una, sem hefur umboð fyrir XPENG hér á landi, opnaði sýningarsal sinn á Vínlandsleið 6-8 um síðustu helgi. Til sýnis verða þrír XPENG rafmagnsbílar en það eru P7, G9 og G6. Bílaumboðið Una er systurfélag Öskju en bæði bílaumboðin eru í eigu Vekru.
Samningar náðust á milli kínverska bílaframleiðandans Xpeng og bílaumboðsins Unu ehf., sem er systurfélag bílaumboðsins Öskju, um sölu og dreifingu þessara áhugaverðu rafbíla á Íslandi.
Í tilkynningu kemur fram að Xpeng hafi notið vaxandi vinsælda í Evrópu undanfarin ár. Höfuðstöðvar félagsins í Evrópu eru í Amsterdam í Hollandi en söluumboð hafa verið opnuð í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Í dag eru þrjár gerðir af bílum í boði hjá Xpeng. Fyrst ber að nefna fólksbílinn P7 sem er fáanlegur með fjórhjóladrifi og hefur allt að 597 km drægni. Þá er G9 rúmgóður fjórhjóladrifinn rafjeppi með allt að 570 km drægni og loks jepplingurinn G6 einnig fáanlegur fjórhjóladrifinn og með allt að 550 km drægni auk þess að búa yfir allt að 1.500 kg dráttargetu.
Xpeng framleiðir einungis rafmagnsbíla og fjárfesti þýski bifreiðarisinn Volkswagen Group nýlega í félaginu fyrir 700 milljónir dala. Á síðasta ári seldi Xpeng 150.000 bifreiðar og stefnir félagið að því að auka framleiðslugetu sína upp í allt að 500.000 bíla á ári.