Heilsuvá í bílnum?
Vont loft inni í bílum getur verið skaðlegt heilsu fólksins í bílnum og bíltúrinn þannig beinlínis valdið veikindum. Þetta er álit sambands varahlutaseljenda í Noregi sem þar í landi hafa byrjað átak í samvinnu við samtök astma og ofnæmissjúklinga og lækna. Átakið felst í því að vekja athygli fólks á miðstöðvarloftsíum í bílunum og mikilvægi þess að þær séu hreinar og virki eins og þeim er ætlað. Þeir telja að óhreinar síur í loftræstikerfum geti ögrað heilsu fólksins í bílnum og orðið gróðrarstía sýkla og allskonar óþverra sem fólkið í bilnum svo andar að sér.
Talsmaður varahlutaseljendanna segir í samtali við bílatímaritið BilNorge að nánast aldrei sé skipt út síunni sem hreinsa á loftið áður en það fer inn í fólksrými bílsins. Þessar síur er svipaðar loftsíum fyrir véina og eðlilegt hlýtur að teljast að skipta um þær ekki sjaldnar en loftsíurnar fyrir vélarnar. Ætla megi að heilsa fólksins í bílunum sé í það minnsta ekki minna virði en góð „heilsa“ vélarinnar.
Miðstöðvarloftsíurnar eru oft kallaðar frjókornasíur í daglegu tali. Þær er að finna í flestum nýjum og nýlegum bílum og í handbókum bílanna er mælt fyrir um hversu oft skuli skipta þeim út. Það er hins vegar sjaldnast gert þegar bílar eru smurðir og yfirfarnir og búast má við að hið sama gildi hér á Íslandi eins og í Noregi. Um þessar síur sé nánast aldrei skipt og óhreinindin í þeim safnast upp og bakteríuflóran blómstrar í þeim.
Öskufallið á Íslandi
Hér á fréttavef FÍB hefur verið greint frá því hver áhrif öskufallið úr Eyjafjallajökli getur haft á bílana. Öskurykið smýgur allsstaðar inn, ekki síst í bílana og búast má við að loftsían fyrir vélina yfirfyllist og jafnvel stíflist tiltölulega fljótlega og sama er auðvitað að segja um miðstöðvarloftsíuna. En taka þessar síur allt rykið? Svarið við því er því miður nei. Flestallar þessar síur eru úr nokkuð fínum pappírstrefjum en þær hreinsa ekki smæstu agnirnar. Þær komast gegn um síurnar og þá ýmist inn í bílinn eða inn í brunahólf vélanna.
Félagsmaður í FÍB hringdi á dögunum og sagði frá reynslunni í álverum af fínu rykinu sem þar var og er kannski enn landlægt í kerskálunum. Hann vildi vara bíleigendur við því að vera mikið á ferðinni í öskuskýjunum á Suðurlandi og sagði frá því að vélar í t.d. lyfturum og öðrum tækjum hefðu enst mun skemur í álverum en samskonar tæki í notkun í ýmsum annarskonar iðnaði og starfsemi. Þetta hefði verið svo vegna þess að öragnir komust í gegn um loftsíurnar og inn í brunahólf vélanna og þaðan meðfram stimplum og stimpilhringjum niður smurolíuna. Afleiðingarnar urðu óeðlilega mikið slit á vélunum og stutt ending. Þá hafi verið það tekið til bragðs að setja blauthreinsibúnað á loftinntak þessara vinnuvéla og það hefði stóraukið endingu vélanna. Þessi maður vildi vara bíleigendur við því að pappasíurnar í bílum nútímans næðu einfaldlega ekki að sía smærri agnirnar frá. Því færu þær inn í vélarnar og yllu því að þær slitni miklu hraðar en ella.
Meðan flestallir íslenskir vegir voru ennþá malarbornir myndaðist oft gríðarlegt ryk af umferðinni og auðvitað barst þetta ryk inn í vélarnar á þann hátt sem hér hefur verið lýst að framan. Sérstaklega var það eftirtektarvert hversu verr vélar í bílum með vélum að aftanverðu entust í malarrykinu. Þannig var algengt að vélarnar í Volkswagenbjöllunum gömlu sem mikið voru á ferð á malarvegunum dygðu 40-50 þúsund kílómetra. Þá voru þær uppslitnar og var skipt út og gamla vélin gekk upp í verð þeirrar nýju. En í bílum sem eingöngu voru á bundnu slitlagi, t.d. í Þýskalandi og Bandaríkjunum dugðu þessar sömu vélar miklu lengur. Algeng ending þeirra þar var amk. fjórföld.
En aftur að miðstöðvarloftsíunum: Í akstri úti á vegum með inntaksloftrásina opna fara gjarnan um 150 lítrar af lofti í gegnum síuna á hverri sekúndu. Úr þessu lofti er síunni ætlað að hindra að ryk, frjókorn og öragnir úr útblæstri bíla berist inn í fólksrýmið. Þegar síuelementið er orðið mjög óhreint og mengað dregur það að sjálfsögðu verulega úr loftstraumnum auk þess sem óhreint loft berst inn í bílinn í hlutfallslega meiri mæli, auk þess sem hverskonar óþverri og bakteríur taka að vaxa og dafna í öllum skítnum og rotnuninni í grútskítugri síu. Fólksrýmið í bílnum getur þannig orðið hið versta pestarbæli.
Af þessum sökum ætti allra hluta vegna að skipta þessari loftsíu út á þetta 15 þúsund kílómetra fresti eða þá árlega, hvort heldur kemur fyrr. Nú eru sumarleyfin framundan og margir hyggja á ferðalög í bílum sínum um landið eða jafnvel erlendis. Upplagt er því að skipta um síuelement nú, ekki síst ef einhver í fjölskyldunni er með t.d. frjókornaofnæmi, astma eða lungnasjúkdóma af einhverju tagi.