Heimahleðsla í áskrift í fyrsta sinn á Íslandi
Orka náttúrunnar kynnti á dögunum nýja byltingarkennda lausn í hröðum heimi rafbílaeigenda. Í fyrsta sinn á Íslandi er nú hægt að fá heimahleðslustöðvar í áskriftarþjónustu í stað þess að rafbílaeigendur fjárfesti sjálfir í slíkum búnaði.
Húsfélög geta samnýtt hleðslustöðvar og þannig deilt áskriftargjaldinu. Hvort sem er þá greiðir hver og einn notandi fyrir sína raforkunotkun. Þjónustan heitir Hleðsluáskrift ON og er þegar hafin.
„Við höfum fundið fyrir því hjá viðskiptavinum okkar að þeim hefur þótt dýrt og flókið að kaupa og láta setja upp hleðslubúnað. Við höfum því verið að þróa réttu lausnina um hríð og teljum okkur nú vera komin með frábæra leið, sérstaklega fyrir þau sem búa í fjölbýlishúsum,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON í tilkynningu.
Tvö áskriftarverð eru í boði; annarsvegar 2.900 kr. á mánuði fyrir sérbýli og 4.400 kr. fyrir fjölbýli. Fyrir áskriftargjaldið fæst ráðgjöf og uppsetning á hleðslustöðinni, rekstur, 24/7 þjónusta og uppfærslur.
„Við erum ánægð og stolt af því að geta boðið frábæra lausn sem hentar sérstaklega vel fyrir fjölbýlishús og fyrirtæki. Hver og einn greiðir fyrir sína hleðslu með ON-lyklinum og því auðvelt að fylgjast með notkun,“ segir Berglind. Allar nánari upplýsingar um þjónustuna má finna hér.