Heimasíða Skoda best
23.12.2005
Danska tímaritið Bilmagasinet hefur útnefnt heimasíðu Skoda bestu heimasíðu bílainnflytjenda í Danmörku og gefið henni fimm stjörnur. Næstum jafngóð og einnig með fimm stjörnur er heimasíða Volvo að mati tímaritsins.
Heimasíðurýnar tímaritsins segjast ekki hafa fundið dauðar eða óvirkar gáttir hjá Skoda og allar upplýsingar séu skýrar og greinilegar. Volvo fær lítilsháttar mínus fyrir það að listar yfir aukabúnað eru óskýrir.
Þeir innflytjendur í hópi 17 söluhæstu bíltegunda í Danmörku sem eru með verstu heimasíðurnar að mati tímaritsins eru Seat og Kia. Dómsorðið um heimasíðu Seat er sá að hún sé sérstæð og ekki fögur. Um heimasíðu Kia er sagt að hún sé grautarleg og villandi.
Samband bílainnflytjenda segir um einkunnagjöfina að hún sé athyglisverð en heimasíður umboða skipti ekki höfuðmáli um sölu einstakra bíltegunda. Flestir kaupendur kynni sér bílana eftir öðrum leiðum, þar á meðal á öðrum heima´siðum en innflytjendanna áður en þeir ákveðið sig.