Heimilt að sækja um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerða
Búið er að heimila það að einstaklingar geti sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við viðgerðir á fólksbifreiðum. Mun þetta eingöngu eiga við um vinnulið reikninga en ekki um varahluti og aðra íhluti sem notaðir eru í viðgerðina.
Gildistími heimildarinnar er frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020. Á því tímabili skal endurgreiða einstaklingum 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu sem unnin er innan þessa tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Með einstaklingum er átt við einstaklinga sem láta gera við fólksbíla í þeirra eigu sem ekki eru notaðir í atvinnurekstri. Heimildin nær ekki til fyrirtækja í rekstri.
Skilyrði endurgreiðslu er eins og áður segir að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.
Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum berst erindið. Skilyrði endurgreiðslu er jafnframt að seljandi þjónustunnar sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.
Vakin er athygli á því að þó hægt sé að sækja um endurgreiðslu nú þegar þá liggja ekki fyrir endanleg svör við öllum spurningum sem einstaklingar kunna að hafa. Bílgreinasambandið vinnur að því að taka saman helstu svör undir "Spurt og svarað" og er sú síða er uppfærð reglulega. Einnig er boðið upp á skráningu á netfangalista til að fá frekari upplýsingar eftir því sem þær berast. Hægt að smella á hnappinn hér að neðan og skrá nafn og netfang ásamt spurningu eða athugasemd og þá verður látið vita þegar nýjar upplýsingar um málið berast.
Skrá mig til að fá frekari upplýsingar um Allir vinna
Að sækja um endurgreiðslu
Þann 19. maí opnaði fyrir umsóknir um endurgreiðslu á heimasíðu Skattsins. Er það gert á þjónustusíðu embættisins www.skattur.is þar sem farið er inn með rafrænum skilríkjum. Þar undir „Samskipti“ er að finna „Virðisaukaskattur“ og er smellt á það þar sem opnast nýr gluggi með umsókn „RSK 10.33 Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bifreiðar“ en smella þarf á RSK 10.33 og þá opnast umsóknarferlið. Vert er að benda á að nauðsynlegt er að hengja skannaðan reikning, sem grundvallar beiðni, við umsókn. Ekki er hægt að klára umsóknarferlið nema reikningur fylgi.
Sækja um endurgreiðslu hjá Skattinum
Þjónustuaðilar og verkstæði innan Bílgreinasambandsins
Bílgreinasambandið hefur nú einnig auðveldað ferlið við að finna traustan og góðan þjónustuaðila eða verkstæði fyrir bílinn þinn. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan getur þú leitað eftir landsvæðum og/eða eftir einstökum þjónustuþáttum, allt eftir þínum þörfum, og á sama tíma verið viss um að velja vandaðan aðila til verksins.