Heimsins minnsti pallbíll?

Við höfum vanist því að pallbílar líti út á þann hátt sem þeir gera flestallir. En er það hið eina rétta sköpulag pallbíla? Hreint ekki segja hönnuðirnir hjá Smart sem teiknað hafa upp og byggt nýjan ör-pallbíl.

http://www.fib.is/myndir/Smart-for-us-3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Smart-for-us-2.jpg

Hann er rafknúinn, tveggja sæta eins og hefðbundnir Smart-bílar, en á 90 sm löngum pallinum er pláss fyrir sitt af hverju, t.d. tvö rafmagnsreiðhjól sem líka eru frá Smart. Hönnuðirnir hugsa sér bílinn sem borgarbíl fyrst og fremst og rafmagnsreiðhjólin tvö eru fest á pallinn í sérstök statív og taka geymar þeirra hleðslu um leið og geymar bílsins sjálfs þegar bílnum hefur verið stungið í samband við rafmagnsinnstungu til hleðslu.

Frumgerð þessa Smart-hugmyndarbíls hefur þegar verið byggð og rafmótorinn í honum er 75 hö og hámarkshraðinn er 120 km á klst. Bíllinn er 3,55 m langur, 1,5 m á breidd og 1,7 m á hæð.  Frumgerðin verður sýnd á bílasýningunni í Detroit í janúar nk. Í raun er þessi pallbíll byggður á nýjum undirvagni eða botnplötu sem verður undir nýjum fjögurra manna Smart bíl eða Forfour. Styttri gerð hennar verður einnig undir næstu kynslóð tveggja manna Smart Fortwo bílanna. Forstjóri Smart; Annette Winkler segir við Auto Motor & Sport að ekkert sé afráðið með fjöldaframleiðslu á pallbílnum. –En við elskum pallbíla svo fremi þeir eru litlir að utan, stórir að innan, eru sterkir, öruggir og þægilegir í notkun, segir hún.