Heimsmarkaðsverð á olíu hækkar - Orkan með hæsta dísilverðið
Verðið á Brent hráolíumarkaðnum í byrjun þessarar viku er það hæsta sem sést hefur í yfir eitt ár. Olíuverð á heimsmarkaði hefur verið að hækka síðustu vikur. Ýmislegt hefur haft áhrif til hækkunar m.a. stigmögnun stríðsins í Jemen þar sem Íran og Sádi Arabía hafa styrkt andstæðar fylkingar og minna olíuframboð vegna samdráttur í framleiðslu Opec ríkjanna með Sádi Arabíu í broddi fylkingar.
Aukin bjartsýni, sérstaklega í Asíu, um að nú hylli undir lok COVID-19 heimsfaraldursins hefur einnig aukið væntingar á mörkuðum og þar með eftirspurn eftir olíu.
Eldsneytisverð hér á landi hefur hækkað síðustu vikur líkt og heimsmarkaðurinn. Bensín hefur hækkað um allt að 11 krónur og dísilolía um 9 krónur á lítra. Orkan sem löngum hefur haldið því á lofti að þeirra eldsneytisverð sé alltaf ódýrast býður um þessar mundir hæsta listaverðið á dísilolíu í öllum landshlutum nema einum.
Dýrust er dísilolían á höfuðborgarsvæðinu hjá Orkunni við Eiðistorg eða 225,60 krónur hver lítri.