Heimsmarkaðsverðið niður en útsöluverðið upp
Þann 19. febrúar, sl. þriðjudag nánar tltekið, snarlækkaði verð á bensíni á Norður-Evrópumarkaði. Þennan dag fór verð á tonninu af bensíni niður um tæplega 100 USD eða úr um 1112 dollurum í um 1013 dollara tonnið. Sé þetta uppreiknað miðað við eðlisþyngd og gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal þá lækkaði bensínverð á heimsmarkaði þann 19. febrúar sl. um tæplega 10 krónur hver lítri.
Þennan sama dag breyttist bensínverðið vissulega á Íslandi líka, en það lækkaði hins vegar hreint ekki eins og mátt hefði vænta eftir þessa stóru dýfu, heldur gerðist hið gagnstæða. Bensínverðið hækkaði! að meðaltali um 2.50 krónur á lítra eða úr 264,4 kr/l í 266,9 kr/l. (algengasta verð). Þetta hlýtur að teljast í meira lagi dularfullt og skýring á þessu undri ekki vel sjáanleg. Spurning hvort þeir sem verðlagsmálum olíufélaganna stýra hafi kannski farið línuvillt, eða ef til vill staðið á höfði þegar þeir lásu verðtöflurnar sínar.
Í gær lækkaði bensínverðið enn á heimsmarkaði um 2 krónur lítrinn. Þegar þetta er ritað (kl. 13:40) er verðið óbreytt hér heima sem er þvert á atburði sem urðu fyrr í febrúarmánuði. Þá urðu örar hækkanir á heimsmarkaðsverði sem nánast strax skiluðu sér í hærra verði frá dælum íslensku bensínstöðvanna.
Sem stendur er meðalálagning olíufélaganna á hvern bensínlítra um 12 krónum yfir meðalálagningu ársins 2012.