Heimsóknarinnar virði
Samgönguminjasafnið í Stóragerði í Skagafirði er sannarlega þess virði að það sé heimsótt. Það er einkaframtak Gunnars Kr. Þórðarsonar bifvélavirkja og Sólveigar Jónasdóttur kennara og fjölskyldu. Þau hafa safnað saman – ekki bara gömlum bílum, heldur líka dráttarvélum og öðrum vélknúnum farartækjum og gert sum þeirra ný í annað sinn af einstakri fagmennsku og vandvirkni.
Auðvelt er að finna safnið, það er rétt við Sleitustaði í mynni Kolbeinsdals við ána Kolku, við veginn sem liggur til Hofsóss, norður í Fljót og til Siglufjarðar. Þarna er lítið þorp enda voru þar fyrrum höfuðstöðvar Siglufjarðarleiðar sem gerði út rútubíla og hafði fólksflutningasérleyfið á leiðinni milli Reykjavíkur og Siglufjarðar. Margir safngripanna í Stóragerði tengjast íslenskri og skagfirskri samgöngusögu.
Reglulegir opnunartímar safnsins í Stóragerði í sumar verða frá og með 1. júní nk. og verður það opið alla daga kl. 11.00-18.00 til og með 30. september. Sýningaraðstaða er með ágætum, bæði innan- og utandyra og í safninu er auk þess ágæt veitingastofa. Öll gestamóttaka og aðstaða er þannig með ágætum, hvort heldur sem eiga í hlut einstaklingar eða stærri og minni hópar.
Meðal dýrgripa safnsins má nefna mjög sjaldgæfan vörubíl af Diamond T gerð og mjólkurbíl af Chevrolet gerð með bæði vörupalli og farþegahúsi. Slíkir bílar voru algengir um allt land um miðja síðustu öld. Þeir óku um sveitir og söfnuðu upp fullum mjólkurbrúsum af brúsapöllum sveitabæjanna og skildu eftir tómu brúsana frá deginum áður ásamt vörum sem bændur höfðu pantað úr kaupfélaginu. Þá gefur að líta bæði Willysjeppa, Fordson, Farmal- og Fergusontraktora, fólksbíla frá ýmsum tímabilum, mótorhjól, snjósleða og meira að segja jarðýtu sem fyrir margt löngu tilheyrði Hólabúinu og gamla bændaskólanum sem þar var lengi. Alls eru hátt í 300 gripir í safninu, bæði innan- og utanhúss í mjög mismunandi ásigkomulagi en allir vel þess virði að skoða.
Formleg sumaropnunarhátíð safnsins verður nk. sunnudag, þann 29. maí en þá koma félagar úr Bílaklúbbi Akureyrar í heimsókn og verða farartæki þeirra til sýnis. Bílakaffi með bílakaffihlaðborði verður í boði fyrir gesti með góðgæti eins og gamaldags brauðtertum, rjómatertum, heitum rétti, maregnstertum og svo auðvitað heitu súkkulaði ásamt ýmsum öðrum girnilegum veitingum.
Bílakaffi og bílakaffihlaðborð verður í boði flestar helgar í sumar. Þegar er eitt slíkt ákveðið sunnudaginn 19. júni í tilefni af
Jónsmessuhátíð á Hofsósi, 3. júlí í tengslum við mikla Hólahátíð helgina 27. júní til 3. júlí og aftur á frídegi verslunarmanna 1. ágúst, 4. september og loks 2. október þegar sumartímabílinu lýkur formlega.