Heldur dregur úr aukningu umferðar á höfuðborgarsvæðinu
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst í desember um fimm prósent sem er minni aukning en í sama mánuði fyrir ári síðan. Árið 2017 jókst umferðin á svæðinu um átta prósent og aðeins árið 2007 má finna meiri aukningu í umferðinni. Þetta þýðir að á hverjum degi fóru 12 þúsund fleiri ökutæki um mælisniðin þrjú en árið áður eftir því sem fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin jókst um 5% í nýliðnum desembermánuði borið saman við sama mánuð árið 2016. Mest jókst umferðin um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 8,3% en minnst yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk eða um 2,9%.
Þetta er mun minni aukning en sú sem átti sér stað á milli sömu mánaða, á síðasta ári, en hálfu prósenti yfir aukningunni sem átti sér stað á milli áranna 2014 og 2015. Umferðin jókst því mikið í öllum mánuðum ársins, mest í mars eða um 14,6% en minnst í nýliðnum desember.
Nú liggur það fyrir að umferðin í þessum þremur mælisniðum á höfuðborgarsvæðinu jókst um 8,0% á milli áranna 2017 og 2016. Þetta er met aukning á einu ári fyrir höfuðborgarsvæðið eftir hrun en árið 2007 heldur enn metinu um hlutfallslega aukningu á milli ára með 9,1%.
Þar sem umferðin árið 2017 reyndist 23,1% meiri árið 2017 en þá varð aukningin í bílum talið meiri nú í ár. Umferðaraukningin milli áranna 2006 og 2007 reyndist tæplega 11 þús. ökutæki á dag en milli áranna 2016 og 2017 reyndist hún vera rétt rúmlega 12 þúsund ökutæki á sólarhring þ.a.l. er þessi aukning nýtt met í bílum talið.
Umferðin í desember jókst hlutfallslega mest á laugardögum eða um rúmlega 17% miðað við sömu vikudaga í desember árið 2016. Mest var ekið á fimmtudögum en minnst á sunnudögum í nýliðnum mánuði.
Fyrir árið í heild jókst umferðin einnig hlutfallslega mest á laugardögum eða um 9,7% en minnst jókst umferðin á mánudögum eða um 6,9% en umferðin á mánudögum reyndist minnst af virkum vikudögum. Mest var ekið á föstudögum, að jafnaði, en minnst á sunnudögum.
Nú liggur það fyrir að frá því að þessi samantekt hófst árið 2005 hefur umferðin í umræddum mælisniðum á höfuðborgarsvæðinu mælst með um 96 % fylgni við verga landsframleiðslu Íslands. Það má því segja að umferðin lýsir því ákaflega vel, í rauntíma, hvað sé að gerast í hagkerfi landsins.