Henrik Fisker aftur í bílana
Danski bílahönnuðurinn Henrik Fisker er greinilega snúinn til baka í bílgreinina eftir ævintýrið með Fisker Karma rafbílinn sem heppnaðist ekki, því miður. Á bílasýningunni í Los Angeles sem opnuð verður eftir tvo daga verður afhjúpaður bíll sem hann hefur hannað. Bíllinn er byggður fyrir bandaríska bílasölukeðju sem heitir Galpin Motors og bíllinn nefnist Galpin Rocket. Fátt hefur verið um hann sagt annað en að þetta sé al-bandarískur ofurbíll með yfirbyggingu úr koltrefjaefnum.
Henrik Fisker er frægur í bílaheiminum fyrir hönnun sína á BMW og Aston Martin bílum og síðan sínum eigin bíl, rafbílnum Fisker Karma. Þá hefur hann einnig hannað mótorhjólið Viking sem var sýnt á mótorhjólasýningu í Köln sem nýlega er afstaðin.
Þegar bílasýningin í Los Angeles verður opnuð upp úr hádeginu þann 20. nóvember að okkar tíma ætlar Henrik Fisker að halda sérstakan blaðamannafund um endurkomu sína í hinn alþjóðlega bílaheim.