Herferð gegn kínverskum bílaeftirlíkingum
17.10.2007
Ekki Toyota RAV4 heldur kínverskur Ufo.
Fiat, Daimler (Mercedes Benz) og BMW halda ótrauðir áfram í herför sinni gegn kínverskum bílum sem eru hreinar eftirlíkingar af vestrænum bílum. Málið kom hressilega upp á yfirborðið í september sl. þegar Kínverjar hugðust sýna bíla á Frankfurt bílasýningunni sem voru svo líkir vestrænum bílagerðum að með ólíkindum þótti. Þrátt fyrir mótmælin voru nokkrar þessara eftirlíkinga sýndar á sýningunni.
En Daimler, BMW og Fiat halda baráttu sinni áfram og Toyota hefur tilkynnt að hert verði á vernd vörumerkja og einkaleyfa þeirra. Kínversku bílaframleiðendurnir sem flestir eru í eigu ríkisins hafa þó lítið látið þetta á sig bíta og töluvert er þegar farið að seljast af kínverskum bílum í Evrópulöndum. Nú hefur Mercedes höfðað mál vegna bíls frá Shuanghuan bílaverksmiðjunum sem nefnist Noble og er svo líkur Smart Fortwo að erfitt er að greina í milli. Fyrirtæki á Ítalíu sem heitir Martin Motors er þegar byrjað að dreifa þessum bíl um Evrópu undir nafninu Bubble, en Daimler hefur tekist að stöðva sölu á bílnum í Þýskalandi.
Fiat hefur stefnt bílaverksmiðjunni Great Wall fyrir dómstóla á Ítalíu og þar með stöðvað í bili að minnsta kosti sölu á bílnum Peri sem er eftirlíking af mest selda smábíl í Evrópu – Fiat Panda. Talsmenn Fiat eiga í viðræðum við Great Wall-stjóra í Kína en reikna með dómtöku málsins í Torino undir lok janúar nk. Þar til dómur fellur getur innflytjandi Peri ekki sett bílinn á markað á Ítalíu.
Innflutningsfyrirtækið China Automobile Deutschland er þegar byrjað að selja jepplinginn Ufo frá kínverska bílaframleiðandanum Jonway. Bíllinn er nákvæm eftirlíking annarrar kynslóðar Toyota RAV4 jepplingsins. Hann kostar 16 þúsund evrur meðan RAV4 kostar 26.600 evrur. Toyota hefur engin ráð til að stöðva söluna vegna þess að RAV4 er ekki einkaleyfisverndaður í Evrópu.
Loks skal nefndur jeppinn CEO frá Shunghuan sem líkist mjög eldri gerðinni af BMW X5. BMW reyndi að hindra að hann yrði sýndur í Frankfurt í haust en hafði ekki árangur sem erfiði. Automovtive News Europe segir að kínverskir bílaframleiðendur geti sparað sér allt að 200 milljónir dollara á hverja bílgerð með því að „kópíera“ bæði útlit og innviði bíla frá öðrum framleiðendum með þessum hætti.