Hertar kröfur gegn hávaða
Í mjög rólegri umferð er tæpast hægt að tala um hávaða frá bílum heldur frekar um lágvaða. Rafbílum er tekið að fjölga í umferðinni og þeir eru nánast hljóðlausir þegar þeim er ekið á litlum hraða og til að gangandi og hjólandi fólk geti betur varað sig á þeim, verður samkvæmt nýjum Evrópusambandslögum skylt að í þeim verði hljóðgjafi hinum óvörðu vegfarendum til viðvörunar. Hljóðgjafarnir eiga að vera í öllum nýjum rafbílum og raf-tvinnbílum frá 2019. Einnig er að vænta nýrrar tilskipunar frá Evrópusambandinu um að brunahreyfilsbílar verði enn hljóðlátari en þeir eru þegar. Núgildandi reglur mæla fyrir um að bíll má ekki vera hávaðasamari en 74 desíbel við tilteknar aðstæður sem mælt er við, en samkvæmt hinum nýju skal það gildi lækka niður í 68.
En hávaði frá bílum er ekki bara vélarhljóð: Þegar bíll silast áfram á gönguhraða eða svo, heyrist sáralítið í honum en þegar hann er kominn á fulla ferð úti á vegi magnast gnýrinn og er stærstur hluti hans frá snúningi hjólanna og núningi þeirra við vegyfirborðið, hvinur frá gírkassa og drifi og frá loftinu sem hann ryður frá sér, og svo auðvitað frá vélinni. Því hraðar sem ekið er, þeim mun meiri gnýr berst frá bílnum. Það á við alla bíla.
Það er ekkert sérlega auðvelt að útskýra hvað þessar desíbelatölur í raun þýða gagnvart mannlegri heyrn og skynjun. En lækkun úr 74 í 68 desíbel er verulegt því að lækkun um 10 desíbel þýðir helmingslækkun á hljóðstyrk. Mikill og langvarandi hávaði upp á 90 desíbel eða meir telst vera eyðileggjandi fyrir heyrn fólk og valda óafturkræfum skaða. 90 desíbel er t.d. hávaðinn frá sem berst frá loftbor þegar staðið er nærri honum. Þegar manneskja talar með eðlilegum talstyrk er hljóðstyrkur raddarinnar í kring um 55 desíbel.