Hillary Clinton vill hertar kröfur til bílaframleiðenda
Hillary Clinton sagðist á kosningafundi í Ohio vilja herða kröfur á hendur bílaframleiðendum þannig að bílar á bandaríkjamarkaði þyrftu að vera að minnst 45% samsettir úr hlutum framleiddum innan Bandaríkjanna til að mega kallast „Made in USA“ eða búinn til í BNA.
Hún sagði að lífsnauðsynlegt væri að verja bandarískan iðnað og að núverandi reglur um þetta og um uppruna bílhlutanna væru allt of slappar. Þær eru reyndar mjög nýlegar og eru hluti fríverslunarsamningsins TPP milli Bandaríkjanna og 11 annarra ríkja í Ameríku, Asíu og Eyjaálfu sem undirritaður var fyrr á þessu ári. Samkvæmt honum skulu reyndar bílar vera samsettir að 45 prósentum úr hlutum framleiddum í Bandaríkjunum til að mega kallast Made in America, sem er víðtækara en Made in USA því það nær til bíla sem framleiddir eru í S. Ameríkuríkjum og Kanada auk Bandaríkjanna.
Frú Clinton taldi 45% regluna eins og hún er skilgreind í TPP samningnum ganga allt of skammt til að verja bandaríska iðnaðinn og atvinnuna en fór í ræðu sinni ekki út í nánari útskýringar á því hvernig hún vildi að þetta yrði framkvæmt.