Hillerød vill keyra á repjuolíu
Repja í blóma á akri í Danmörku
Repjuolía eða dísilolía á dísilbílinn – hvort er betra? Það vilja stjónendur Hillerød bæjarfélagsins á Sjálandi í Danmörku vita fyrir víst og þessvegna verður einungis repjuolía tekin á einn af vörubílum sveitarfélagsins næstu sex mánuðina. Verði árangurinn góður verða allir 50 dísilknúnu vinnubílar sveitarfélagsins gerðir umhverfisvænir og þeim framvegis ekið á repjuolíu.
Eins og greint hefur verið frá hér á fréttavef FÍB er hægt að aka nánast öllum dísilbílum á lífrænni olíu, repjuolíu, sólblómaolíu, salatolíu eða hvaða nafni sem varan nefnist án teljandi breytinga á bílunum. Kosturinn við lífrænu olíuna að hún er alveg brennisteinslaus og við bruna hennar leysist miklu minna úr læðingi af efnum sem eru skaðleg umhverfinu. Gallinn við hana er sá að hún hefur verið dýrari og auk þess viðkvæmari fyrir því að þykkna í kuldum. Af þeirri ástæðu hefur verið settur forhitari í tilraunabílinn í Hillerød. Að öðru leyti er bíllinn óbreyttur.
Þá sex mánuði sem tilraunin stendur verður fylgst nákvæmlega með eyðslu bílsins og öllu ástandi hans, hvort slit og viðhald breytist eitthvað. Komi engar sérstakar aukaverkanir fram í bílnum verða allir dísilbílarnir 50 þaðan í frá keyrðir á lífrænni repjuolíu.
Frá þessu er greint í Frederiksborg Amts Avis og sá sem stjórnar tilrauninni segist hafa ekið í repju-dísilbílnum og enginn munur sé finnanlegur á því hvort honum sé ekið á repjuolíu eða venjulegri dísilolíu.
Repjuolían er framleidd í Danmörku úr repju sem ræktuð er í landinu og kostar lítrinn um 45 krónur. Við það bætist olíugjald og virðisaukaskattur þannig að fullt verð er um 90 krónur íslenskar. Tilraunastjórinn segir við blaðið að ef allir dísilbílarnir 50 í eigu sveitarfélagsins væru keyrðir á repjuolíu þá þýddi það 200 tonnum minni útblástur af koltvíildi út í danskt andrúmsloft á ári en það svarar til brennslu á 100 tonnum af dísilolíu. Hinir nauðsynlegu forhitarar í alla bílana 50 munu kosta rúmar fjórar milljónir ísl. króna.