Hjálparþjónusta FÍB um helgina

http://www.fib.is/myndir/Start3.jpg

Líkt og undanfarin 58 ár verður FÍB með þjónustuvakt um verslunarmannahelgina fyrir bíleigendur. Hjálparþjónusta FÍB miðast við að aðstoða bíleigendur á ferðalagi sem þurfa á þjónustu bílaverkstæðis að halda eða vantar varahlut. FÍB aðstoðarbílar verða á fjölförnustu leiðum og umboðsmenn félagsins og samstarfsaðilar um land allt eru í viðbragðsstöðu.

Aðstoð á vegum
Helstu bifreiðaumboð landsins hafa um áratugi góðfúslega lánað FÍB viðbótar-aðstoðarbíla sem eru á vegum landsins um þessa helgi. Að þessu sinni hefur Ingvar Helgason hf. lánað félaginu aukabíla. FÍB kann fyrirtækinu og hlutaðeigandi umboðum góðar þakkir fyrir þessa velvild í garð bifreiðaeigenda yfir eina mestu ferðahelgi ársins. Þessir bílar eru kærkomin viðbót við aðstoðarbíla FÍB og samstarfsaðila félagsins.

Fjölmargir samstarfs- og þjónustuaðilar FÍB í bílgreininni verða ýmist í fullu starfi eða í viðbragðsstöðu um helgina. Þá hefur Spölur hf. eins og undanfarin ár heimilað gjaldfrjálsa umferð aðstoðarbíla á vegum FÍB um Hvalfjarðargöngin. FÍB þakkar sömuleiðis þessum aðilum fórnfýsi þeirra og velvild í garð ferðalanga um vegi landsins um verslunarmannahelgina 2008.

Viðgerðir og varahlutir

Víða um land eru verkstæði opin vegna neyðarþjónustu og bílaumboð og stærri varahlutasalar hafa góðfúslega skipulagt bakvaktir vegna varahlutaafgreiðslu fyrir milligöngu FÍB.

Hjálparvakt hjá FÍB
Skrifstofa FÍB, sími 414-99-99, hefur milligöngu varðandi aðstoðarbeiðnir um verslunarmannahelgina og þar verður vakt frá föstudegi til síðdegis á mánudag. Þegar ekki er vakt á skrifstofunni svarar FÍB AÐSTOÐ í síma 5-112-112.

Góða ferð
FÍB óskar öllum vegfarendum góðrar ferðar um verslunarmannahelgina og ráðleggur bíleigendum að yfirfara bíla sína áður en lagt er upp í langferð. Nokkur ráð um hvernig best er að undirbúa bílinn fyrir helgina eru í fréttinni hér á undan á fréttavef FÍB og einnig í dagblaðinu DV í dag, fimmtudaginn 31. júlí 2008.