Hjólbarðakynning Michelin á Keflavíkurflugvelli
Michelin dekkjaframleiðslufyrirtækið stóð fyrir kynningu fyrr í dag á nýjustu gerð Michelin Energy Saver hjólbarðans. Kynningin fór fram á Keflavíkurflugvelli og gafst gestum kostur á að aka bílum búnum þessum hjólbörðum inni á lokuðum svæðum undir handleiðslu þrautþjálfaðra sænskra keppnisökumanna og kynnast þannig eiginleikum hjólbarðanna.
Ætlunin var að gestir á kynningunni fengju að aka bílum á Michelin Energy Saver hjólbörðum annarsvegar á þurru aksturssvæði en hins vegar blautu. Þar sem skúraveður var, reyndist „þurra“ aksturssvæðið rakt eða vott, en blauta svæðið sannarlega rennvott, enda sprautuðu dælubílar slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli stöðugt vatni á það. Að þessum akstri loknum gafst gestum kostur á að aka eftir akstursbraut í Porsche Cayenne tryllitæki með þrautþjálfuðum sænskum keppnismanni í akstursíþróttum.
Að síðustu var lítill fólksbíll látinn renna af skábretti í öðrum enda stóra flugskýlisins í Keflavíkurflugvelli niður á slétt gólfið þar til hann stöðvaðist af sjálfu sér. Eftir að bíllinn hafði verið látinn renna tvisvar sinnum og vegalengdin sem hann rann í hvort sinn mæld, var skipt um dekkjagang og tilraunin síðan endurtekin. Að síðustu var bíllinn settur á Michelin Energy Saver dekkjagang og tilraunin endurtekin í þriðja sinn. Augljóst var að núningsmótstaða í Energy Saver dekkjunum var miklu minni en í hinum tveimur dekkjagögunnum sem báðir voru af algengum teegundum því að bíllinn rann endanna á milli í risastóru flugskýlinu og stöðvaðist fyrst þegar hann rann á stuðpúða á endaveggnum.
Þetta er í fyrsta sinn sem stór dekkjaframleiðandi kynnir vöru sína með þessum hætti á Íslandi. Tveir ökumenn frá FÍB tóku þátt í reynsluakstrinum sem fyrr er nefndur og fundu þeir ekki annað en að veggrip dekkjanna væri með besta móti hvort sem var í rennbleytu eða á rökum vegi.
FÍB vill enn og aftur minna bíleigendur á hversu miklu máli það skiptir fyrir öryggi þeirra sjálfra og annarra í umferðinni að vera á góðum dekkjum frá viðurkenndum framleiðendum. Í þessu sambandi er rétt að minna á hálfsárslega dekkjakönnun systurfélaga FÍB í Evrópu sem jafnan er birt hér á vef FÍB og/eða í FÍB blaðinu hvert haust og vor.
Í þessum könnunum systurklúbanna eru flestar algengustu tegundir dekkja prófaðar við nánast allar aðstæður sem upp koma á vegum allan ársins hring. Niðurstöðurnar gefa mjög góða mynd af getu dekkjanna og traustan samanburð milli einstakra tegunda.
Vetrardekkjakönnunin 2008-09 mun berast félaginu á næstu dögum. Því miður er hún of seint á ferðinni til að ná inn í haustútgáfu FÍB blaðsins sem nú er í prentun. Hún mun því verða birt hér á heimasíðu FÍB um leið og hún hefur verið þýdd og staðfærð.