Hjólbarðarnir skoðaðir

Nemendur í Lögregluskóla ríkisins könnuðu sl. föstudag ástand hjólbarða undir bílum. Við þetta nutu nemendurnir aðstoðar tveggja starfsmanna FÍB; þeirra Henriks Knudsen og Ólafs Kr. Guðmundssonar. Hjólbarðarnir voru skoðaðir út frá tékklista. Meðal þess sem athugað var, var m.a. tegund og gerð hjólbarða undir bílum, hver mynsturdýptin væri og hvort loftþrýstingur í þeim væri réttur, o.s.frv. Ennfremur lögðu lögreglunemarnir spurningar fyrir ökumennina um hjólbarða. Nemarnir vinna nú úr niðurstöðum könnunarinnar og verður ítarlega greint frá niðurstöðum hér á fréttavef FÍB og í sumarblaði FÍB blaðsins, þegar úrvinnslu lýkur.

http://www.fib.is/myndir/Henrikpumpar.jpg
Henrik Knudsen frá FÍB jafnar loftþrýstinginn og lög-
reglunemarnir fylgjast með.

Hjólbarðaskoðunin var þáttur í vinnudegi nemendanna úti vettvangi. Áður höfðu þeir fengið kennslu í fjölmörgu er tengist akstri og umferðaröryggi. Hjólbarðar eru mjög veigamikill þáttur í því hversu bíll er öruggur í akstri. FÍB hefur í rúmlega 70 ára sögu sinni alla tíð lagt mikla áherslu á umferðaröryggi. Það hefur undanfarinn áratug birt viðamiklar gæðakannanir á hjólbörðum í félagsblaði FÍB og hér á vefnum og mælir jafnan sterklega með því að bifreiðaeigendur velji sér ætíð hjólbarða sem best hæfa akstursaðstæðum þeirra og akstursöryggi. Það var því eðlilegt og sjálfsagt af félagsins hálfu að leggja lögreglunemunum lið við þetta verkefni.

Ein meginforsenda þess að bíll sé öruggur í akstri er að hjólbarðarnir undir honum séu í lagi, ekki of slitnir, ekki skemmdir, þeir séu af sömu tegund og gerð, í það minnsta á hvorum ás og helst á báðum. Þá skal loftþrýstingurinn í þeim vera sem næst fyrirmælum framleiðanda bílsins. Ef þrýstingurinn er of lágur, brenglast aksturseiginleikarnir og slysahætta vex. Auk þess eykst hætta á að hjólbarðarnir hitni og jafnvel eyðileggist. Um allt þetta má lesa í bæklingi sem FÍB gaf út fyrir fáum árum og dreifði ókeypis ásamt loftmæli og slitmæli eða mynsturdýptarmæli.

Nemendahópurinn ásamt aðstoðarmönnunum frá FÍB komu sér fyrir á bílastæðinu framan við IKEA-verslunina í Kauptúni í Garðabæ. Könnunin fór þannig að rætt var við ökumenn og þeir beðnir um að svara tilteknum spurningum um hjólbarða, meðan hjólbarðarnir undir bílum þeirra voru skoðaðir og loftið í þeim og slit þeirra var mælt. Henrik Knudsen deildarstjóri FÍB-aðstoðar segir að þetta hafi gengið afar vel. Rætt hafi verið við rúmlega 100 ökumenn og öll samskipti lögreglunemanna og ökumannanna hafi verið sérlega vinsamleg og jákvæð á báða bóga.

http://www.fib.is/myndir/Logguhopur.jpg