Hlöður settar upp við Landspítala í Fossvogi
Landspítalinn leggur sitt af mörkum við orkuskipti með því að auðvelda starfsfólki aðgang að hleðslum fyrir rafbíla á nokkrum starfsstöðvum sínum. Verkefnið er hluti af umhverfistefnu og loftslagsmarkmiðum Landspítala, en mikilvægt er að hraða orkuskiptum í samgöngum með því að efla innviði s.s. gott net hleðslustöðva. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orku náttúrunnar.
Í sumar voru settar upp hleðslur á tveimur starfstöðvum spítalans; við Landakot og á Kleppi. Nú hafa verið settar upp tvær hlöður í Fossvogi. ON sér um uppsetningu og rekstur hleðslanna sem allar gerðir rafbíla geta nýtt sér.
Starfsfólk Landspítala og aðrir rafbílaeigendur þurfa að sækja um ON lykil á vefsíðu ON til þess að nýta sér hleðslurnar. Ferlið er einfalt; sótt er um lykil sem berst með pósti heim og fólk virkjar hann með því að skrá inn greiðslukort á Mínum síðum ON.
Það eina sem þarf að gera til að setja hleðslu í gang er að bera ON lykilinn upp að hlið hleðslunnar, stinga í samband við bílinn og hefst þá hleðsla. Hleðslurnar eru 22kW en sérhver rafbíll stýrir hraða hleðslunnar sjálfur. Flestar rafbílategundir eru að taka inn á sig ca. 6-7kWh á klst. og eru því flestir um 4-5 klst. að fullhlaða sig í þessum hleðslum. Stæðin við hleðslurnar eru fyrir rafbíla í hleðslu en ekki bílastæði og tveir rafbílar geta hlaðið í hvorri um sig í einu.
Hleðslurnar verða gjaldfrjálsar fyrst um sinn, en síðar munu viðskiptavinir greiða skv. verðskrá ON, sem verður lægra en verð fyrir hraðhleðslur ON. Allar nánari upplýsingar er að finna í þjónustuveri eða á https://www.on.is/rafbilar.