Hlutdeild dísilbíla talin munu minnka
20.05.2008
Vinsældir og sala dísilfólksbíla í Evrópu er á hápunkti nú. Hlutdeild þeirra mun fara lækkandi í álfunni næstu árin og árið 2020 verður þriðji hver nýr fólksbíll verða dísilbíll en er annar hver bíll nú. Ástæður þessa eru taldar vera þær að framfarir hafa orðið og halda áfram að verða í smíði sparneytinna bensínvéla og griðarlegar heimsmarkaðshækkanir hafa orðið á dísilolíu sem eru langt umfram hækkanir á bensíni. Þetta kemur fram í spá evrópskri rannsóknamiðstöð í bílamálum sem heitir Center for Automotive Research (CAR).
Dísilbílar hafa orðið stöðugt vinsælli í Evrópu á undanförnum mörgum árum og aukið hlutdeild sína stöðugt. Árið 1990 voru dísilbílar 13,8% nýrra bíla í Evrópu en í fyrra voru þeir 53,3%. Hlutur nýrra dísilbíla á síðasta ári var 77,2% í Luxembourg, í Belgíu var var hann 77% og í Frakklandi 73,9%.
Rannsóknamiðstöðin Center for Automotive Reseach (CAR) telur því að hámarki dísilvæðingarinnar hafi verið náð og nú taki bensínvélin að draga á dísilvélina og eigi eftir að síga fram úr henni. Ástæðan sé sú að bensínvélarnar séu stöðugt að verða minni og léttari en jafnframt hlutfallslega aflmeiri, þökk sé nýjum bensíninnsprautunarbúnaði, túrbínum, forþjöppum og stýrikerfum.
Þá hafi hlutfallslega meiri hækkanir á dísilolíu en bensíni að undanförnu verið að éta stöðugt meir og meir af þeim ávinningi sem var af því að aka dísilbílum frekar en bensínbílum þrátt fyrir að þeir væru lítillega dýrari en samskonar bensínbílar. Þetta geri kaup á þeim óhagstæðari en áður, sérstaklega fyrir þá sem aka lítið eða í meðallagi. Hækkanirnar hafa ennfremur valdið því að endursöluverð dísilbíla fer nú lækkandi.
Minni sölu dísilbíla er þegar farið að gæta í fólksflesta Evrópulandinu, sem er Þýskaland. Á tímabilinu janúar-apríl í ár dróst sala dísilbíla þar saman í fyrsta sinn. Samdrátturinn varð 1,8% miðað við sama tímabil í fyrra og hlutdeild dísilbíla á tímabilinu seig niður í 45,8%.