Hlutfall kornungs fólks í dauðaslysum í breskri umferð hækkar

http://www.fib.is/myndir/Young-Driver-Safety.jpg
Þrátt fyrir að alvarlegum umferðarslysum hafi í heild fækkað undanfarin ár í Bretlandi hefur dauðaslysum og alvarlegum slysum á unglingum tvítugum og yngri fjölgað um nærri 50% frá árinu 2000. Frá þessu er greint í fréttabréfi AA-Trust en AA-Trust er umferðaröryggisstofnun bifreiðaeigendafélagsins AA í Bretlandi.

Ástæður þessar ógnvænlegu fjölgunar dauðaslysa á unglingum eru raktar til nokkurra þátta sá helsti er talinn vera sá að sífellt færri unglingar hlutfallslega taka bílpróf þegar þeir ná bílprófsaldri heldur fresta því af ástæðum eins og framhaldsnámi og erfiðum skólagjöldum þar til þrítugsaldurinn nálgast.
Á hinn bóginn er alltaf ákveðinn hópur mikilla áhugamanna um bíla og bílamenningu sem tekur bílpróf eins fljótt og verða má. Þessi hópur er mikið á ferðinni á bílum og safnar gjarnan jafnöldrum sínum í bíla sína. Og eins og unglingum oft hættir til vilja þeir gjarnan sýna félögunum hæfni sína sem ökumenn og aka langt yfir og umfram sína raunverulegu akstursgetu, hunsa umferðarreglur – ekki síst hraðamörk- og efna til götukappaksturs við aðra unga ökumenn, oft  með mjög alvarlegum afleiðingum.

Þetta telur AA-Trust m.a. vera ástæðu þess sem lesa má út úr nýrri rannsókn National Travel Survey í Bretlandi, að dauðaslysum, ekki síst hópslysum á ungu fólki í umferðinni hefur fjölgað svo mjög. Þegar þessi dauðaslyseru skoðuð sem hlutfall af fjölda ökuréttinda fólks að tvítugu kemur í ljós að um tvöföldun þeirra er að ræða frá árinu 2000 og fjöldi alvarlega slasaðra hefur aukist um 30% á sama tímabili.

Í stuttu máli  má lýsa þessu máli með eftirfarandi hætti:

a)  Þegar ungum ökumönnum fækkar, ferðast fleiri unglingar saman í einum bíl. Hætta á hóp-dauðsföllum eykst þar með. Til að sporna við slíku er rætt um  að setja reglur eins og þær að ungum breskum ökumönnum með ný ökuskírteini sé óheimilt að aka með farþega og/eða farþegafjöldi sé takmarkaður fyrstu vikur og mánuði eftir ökupróf. Einnig er rætt um að banna þeim að aka á kvöldin og nóttunni og að skylt verði að sérmerkja bíla nýgræðinga meðal ökumanna.

b) Hlutfall ungra ökumanna sem eru ábyrgir gerða sinna og aka aldrei undir áhrifum áfengis eða lyfja hefur farið og fer lækkandi.  

c) Hluti (minnihluti) ungs fólks með sérstakan áhuga á bílum og bílamenningu temur sér viðhorf sem hafa slæma aksturshegðun í för með sér. Þessi hópur verður oft að kærulausum og slæmum ökumönnum.  

d)  Þar sem ofannefndur hópur „bíladelluunglinga“ tekur oftast ökupróf eins fljótt og lög leyfa (við 17 ára aldur í Bretlandi) þá fer sá hópur ungra ökumanna stækkandi sem skilgreindur er sem há-áhættuhópur. Niðurstaða rannsóknar AA-Trust er sú að sérstaklega verði að beina kastljósinu að þessum ungu og hættulegu ökumönnum.


Andrew Howard, stjórnandi umferðaröryggisdeildar AA-Trust segir að skoða verði sérstaklega málefni þessa minnihlutahóps meðal ungra ökumanna og hvort og í hve miklum mæli verði gripið til aðgerða eins og að takmarka ökuréttindi þeirra þannig að þeim verði óheimilt að aka aflmiklum og hraðskreiðum bílum, óheimilt að aka á nóttunni og óheimilt að aka með farþega. Jafnframt sé nauðsynlegt að skoða hvernig ökukennslu þeirra og þjálfun er háttað og kanna viðhorf þeirra til áfengis og annarra vímugjafa og meta út frá því, m.a. hvort þeim verði veitt ökuréttindi eða ekki.
http://www.fib.is/myndir/Oneinfour.jpg  http://www.fib.is/myndir/Stilltheone.jpg