Högg-vari við ljósastaurinn
28.06.2005
Um þessar mundir er verið að ganga frá strætisvagnastöðvum á Vesturlandsvegi vestan við Höfðabakkabrú. Jafnframt er verið að setja upp vegrið á miðjan veginn til að aðskilja umferð til gagnstæðra átta. Vegriðið er mikil framför og mun örugglega bjarga lífi og limum í framtíðinni.
Í tengslum við strætisvagnastöðina er verið að setja upp fyrsta högg-varann á Íslandi svo við vitum, við ljósastaur sem er við útkeyrsluna af strætisvagnsútskotinu á suðurkanti vegarins. Ef bíl er ekið á þennan högg-vara þá dregur hann úr högginu sem verður þegar bíll skellur á honum, með því að renna fram á við undan bílnum spölkorn.
Hingað til hefur lítið verið hugað að slysavörnum eins og þessum á og við vegi. Þar sem vegrið eru hefur oftast verið gengið frá endum þeirra þannig að endinn lækkar í átt til jarðar. Það hefur þau áhrif að ef bíll ekur á vegriðið þá fer hann upp á það og veltur. Þar sem staurar eru eða stólpar við vegi eru sjaldnast neinar varnir af þessu tagi heldur. Nýlega hafa orðið alvarleg slys vegna slíks vanbúnaðar. Þegar um þetta er spurt er oftar en ekki svarað til, að slys verði vegna þess að fólk aki of hratt.
Nýja höggvörnin á Ártúnsholtinu. - Gleðileg nýjung.