Honda Accord uppáhald þjófa
Vefmiðillinn The Detriot Bureau birti nýlega árlegan lista yfir mest stolnu bílana í Bandaríkjunum. Listinn er tekinn saman af stofnun sem nefnist National Insurance Crime Bureau. Enn og aftur er Honda Accord árgerð 1994 efsti bíll á þessum lista eins og bíllinn hefur vreið allar götur frá 2008. Accordinn er þannig sá bíll sem þjófar eru hvað líklegastir til að reyna sig við.
En með bættum þjófavörnum í bílum hefur bílþjófnuðum fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Bílaþjófnaðir eru mis algengir eftir landsvæðum og nokkur svæði eru það sem fólk þar vestra kallar heita reiti í þessum efnum. Einn heitasti reiturinn er vesturströnd Bandaríkjanna.
Honda virðist vera vinsæl bíltegund hjá bílþjófum því að auk Accord 1994 er 1998 árgerðin af Honda Civic einnig ofarlega á þessum lista, eða í öðru sæti. Þá sýnir það sig að helmingur bílanna á vinsældalista bílþjófanna eru japanskir og hinn helmingurinn bandarískir bílar. Sömuleiðis er um helmingur bílanna á listanum fólksbílar en hinn helmingurinn jeppar og pallbílar eins og t.d. Ford F-150 árg. 2006.
Löngu eru þeir dagar liðnir þegar læsingar bíla voru ekki annað en lás sem lykli var stungið í og bíllinn og síðan kveikjulásinn var opnaður með. Nú eru komnar til viðbótar allskyns fjarstýringar og þjófnaðarvarnarkerfi sem rjúfa strauminn ef tilraun er gerð til innbrots. En þessi búnaður hefur hreint ekki reynst jafngóð vörn gegn þjófnuðum eins og trúað var í fyrstu. Þjófarnir fylgjast nefnilega líka með tækninni og eru oft ansi fljótir að brjótast inn í þessi rafrænu varnarkerfi. En eftir því sem rafrænu þjófnaðarvarnirnar batna, fækkar þjófnuðum á nýjum og nýlegum bílum en fjölgar á þeim eldri. Því reyna eigendur eldri bílanna að verjast með því að verða sér úti um þjófnaðarvarnir af ýmsu tagi sem fást í bílabúðum, bæði læsingar til að festa á stjórntækin og gera þau þannig óvirk, eða þá að setja í bílana rafrænan búnað sem hefur frá sér óhljóð ef reynt er að stela þeim, eða gerir rafkerfi þeirra óvirkt.