Honda bætir við sig
Honda í Japan ætlar ekki að láta sér nægja að framleiða bíla, mótorhjól og alls konar smávélar heldur bæta fluginu við sig. Fimm manna smáþota er nú þegar nánast tilbúin til framleiðslu en markmiðið er að byggja 80 slíkar flugvélar á ári. Að hluta til verður byggt á reynslu Honda úr bílaiðnaðinum, ekki síst í þeim tilgangi að halda verði flugvélanna sem mest innan skaplegra marka. Verð svona Honda þotu er í kring um 550 milljónir ísl. kr. og pantanir liggja þegar fyrir í 240 stykki, eða sem svarar áætlaðri framleiðslu næstu þrjú árin.
Áætlanir um flugvélasmíði eru alls ekki nýjar af nálinni hjá Honda, þær hafa verið að vaxa og dafna undanfarin aldarfjórðung eða svo. Nýja vélin er sem fyrr segir fimm sæta og með tvo þotuhreyfla. Skrokkurinn er að miklu leyti úr koltrefjaefnum og eldsneytiseyðslan sögð vera um 20 prósent minni en hjá helstu keppinautunum í sama stærðarflokki, sem eru einkum Cesssna í Bandaríkjunum og Embraer í Brasilíu. Vélin verður byggð í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Flugdrægi hennar er um 2600 kílómetrar, flughraði er 778 km á klst í 30 þús. feta hæð og hámarks flugtaksþyngd er fjögur tonn.
Í stjórnklefanum eru stjórntæki flugmannanna aðallega snertiskjáir. Mestallur sá búnaður er frá Garmin og greint er frá því að þessa búnaðar muni þegar fram líða stundir sjá stað í Honda bílum.