Honda hættir í Formúlu 1
Í nótt kallaði Takeo Fukui forstjóri Honda til stutts blaðamannafundar í Tokyo. Þar tilkynnti hann að fyrirtækið segi sig frá keppni í Formúlu 1. Þátttakan væri einfaldlega allt of dýr. Ákvörðunin tekur gildi þegar í stað og formúlulið Toyota er til sölu. Allri starfsemi í kring um liðið verður hætt og starfsfólki, um 800 manns, verður sagt upp. Meðal þeirra er stjórstjarnan og ökumaðurinn Jenson Button og hinn gamalkunni Formúlukappi Rubens Barrichello.
Tilkynningin kemur sem köld gusa inn í Formúluheiminn og fólk spyr – hver verður næstur. Takeo Fukui sagði í nótt að þátttaka í Formúlunni væri óheyrilega dýr og fyrirtækið yrði að huga fyrst og fremst að kjarnastarfsemi sinni sem væri að framleiða bíla fyrir venjulegt fólk. Í þeirri grein bæri að huga betur að þróunarmöguleikum. Hann sagði að vissulega væri heimskreppan sem nú er að skella á af vaxadi þunga og stórlega minni bílasala verulegur þáttur í þessari ákvörðun.
Eigið Formúlulið Honda hefur alla tíð verið talsvert langt frá því að vinna stóra sigra undanfarin ár. Best gekk liðinu árið 2006 þegar Bretinn Jenson Button sigraði Ungverjalandsformúluna – að vísu með nokkurri heppni.
Stórveldistími Honda í Formúlunni var á árunum 1980 til 1990 þegar Honda byggði mótora í bíla McLaren og Williams liðanna. Í því efni á Honda sex heimsmeistaratitla, hefur tekið þátt í 340 Forúlu 1 keppnisviðburðum, sigrað 72 sinnum og ökumenn bíla með Honda mótora komust 123 sinnum á verðlaunapall.
Þessi ákvörðun Honda er þungt högg fyrir Formúluna í heild. Keppnisliðum hefur verið að fækka og einungis 10 lið með samtals 20 bíla hafa tilkynnt um þátttöku á næsta keppnistímabili. Bernie Eccelstone stjórnandi Formúlu 1 heimskeppninnar hefur gert samninga við keppnishaldara í hverju keppnislandi um sig. Í þeim eru ákvæði um að aldrei verði færri bílar en 20 til að hefja keppni. Fari svo að eitt lið enn segir sig frá Formúlunni verða einhver þeirra liða sem eftir eru að bæta við bílum, sem kann að reynast þeim erfitt ef ekki ómögulegt.
Formúluáhugamenn óttast að fleiri fylgi nú fordæmi Honda. Orðrómur er um að Renault hyggist leggja sitt Formúlulið niður og Williams liðið á í miklum fjárhagsörðugleikum, en Baugur hefur verið einn af styrktaraðilum þess. Miðað við ástandið í efnahagsmálum Íslands er erfitt að gera sér í hugarlund að Baugur sé sérstaklega aflögufær um þesssar mundir.
Þá hefur lið Scuderia Toro Rosso eða Red Bull verið auglýst til sölu. Það er því ekki bara kreppa á Íslandi, Formúlan er líka á brún hengiflugsins.