Honda innköllun í Kína
Hið japanska bílaframleiðslufyrirtæki Honda innkallar um þessar mundir yfir 400 þúsund bíla í Kína. Bílarnir eru allir framleiddir í Kína af Dongfeng Honda Automobile Co Ltd og er ástæða innköllunarinnar gallaðar stimpilstangir í dempurum að því er segir í Reutersfrétt.
Svo virðist sem verið sé að herða opinbert gæðaeftirlit með nýjum bílum í Kína því að í síðasta mánuði þurftu BMW, Suzuki og Tata Motors að innkalla bíla vegna meintra framleiðslugalla. Allt eru þetta erlend bílamerki: BMW er þýskt, Suzuki er japanskt og Tata indverskt. Þeir bílar sem Tata framleiðir í Kína eru aðallega gömlu bresku merkin Land Rover og Jaguar.
Hondabílarnir sem innkallaðir eru nú eru 408.069 talsins, allir CR-V jepplingar sem framleiddir voru frá 2. mars 2010 til 30. ágúst 2012.