Honda Jazz sem tvinnbíll á næsta ári

http://www.fib.is/myndir/HondaJazzHy.jpg
Tvinnbílum fjölgar stöðugt og fleiri framleiðendur smíða slíka vagna. Toyota og Lexus eru ekki lengur ein um hituna og erlendar fréttastofur hafa alveg nýlega eftir Takeo Fukui forstjóra Honda að til að tvinnbílar verði alvöru valkostur við bíla með hefðbundnum vél- og drifbúnaði verði þeir að verða ódýrari og kosta svipað og aðrir sambærilegir bílar að notagildi.

Verðmunurinn segir forstjórinn að megi ekki vera mikið meiri en er á milli handskiptingar og sjálfskiptingar í venjulegum bíl, það er að segja rúmlega 100 þúsund kall. Þetta virðist Honda ætla að staðfesta því að á næsta ári er smábíllinn Honda Jazz væntanlegur á markað í Japan sem tvinnbíll, með bensín- og rafmótor og verður hann ódýrasti tvinnbíllinn hingað til.

Frá þessu var greint í japönsku dagblaði í síðustu viku. Þar kom fram að bensínvélin í þessari tvinnútgáfu Honda Jazz verður 1,0 l að rúmtaki, nokkru minni en í hefðbundnum Jazz. Þá verði rafgeymarnir af nýrri gerð og léttari en samskonar geymar hafa verið til þessa.