Honda og Nissan stefna að sameiningu árið 2026
Japönsku bílaframleiðendurnir Honda og Nissan eru í viðræðum um að sameina fyrirtækin fyrir árið 2026. Í tilkynningu segir að um sögulega stefnubreytingu fyrir japanska bílaiðnaðinn sé að ræða sem undirstrikar þá ógn sem kínverskir rafbílaframleiðendur eru nú fyrir rótgróna bílaframleiðendur heimsins.
Þessi samruni myndi skapa þriðja stærsta bílaframleiðanda í heimi á eftir Toyota og Volkswagen. Mitsubishi Motors, þar sem Nissan er stærsti hluthafinn, var einnig að íhuga að taka þátt í samrunanum og mun taka ákvörðun fyrir lok janúar, að sögn fyrirtækjanna.
Í tilkynningunni kemur fram að þetta myndi einnig gefa fyrirtækjunum tveimur stærðarhagkvæmni og tækifæri til að deila auðlindum í ljósi harðrar samkeppni frá Tesla og sveigjanlegum kínverskum keppinautum, eins og BYD. Sameining Honda, næststærsta bílaframleiðanda Japans, og Nissan, þriðja stærsta framleiðandans, yrði stærsta umbreyting í alþjóðlegum bílaiðnaði síðan Fiat Chrysler Automobiles og PSA sameinuðust árið 2021 og mynduðu Stellantis í 52 milljarða dollara samningi.
Uppgangur kínverskra bílaframleiðenda breytti öllu
Forstjórar fyrirtækjanna þriggja sögðu á sameiginlegum blaðamannafundi í Tókýó í morgun að uppgangur kínverskra bílaframleiðenda og nýrra aðila hefur breytt bílaiðnaðinum töluvert. Þar var vísað til tækniþróunar í rafvæðingu og sjálfakandi tækni. Byggja verði upp getu til að veita harða samkeppni við þá fyrir árið 2030, annars munum við tapa.
Fyrirtækin tvö stefna að sameiginlegri sölu upp á 30 billjónir jena (191 milljarður dollara) og rekstrarhagnaði upp á meira en 3 billjónir jena í gegnum mögulega sameiningu. Þau stefna að því að ljúka viðræðum í kringum júní 2025 áður en eignarhaldsfélag verður stofnað í ágúst 2026, þegar hlutabréf beggja fyrirtækja verða afskráð.
Honda, sem er með markaðsvirði upp á meira en 40 milljarða dollara, um það bil fjórum sinnum meira en Nissan, mun skipa meirihluta stjórnar fyrirtækisins. Með sameiningu við Mitsubishi Motors myndu heildarsala japönsku samsteypunnar ná yfir 8 milljónir bíla. Núverandi þriðja sæti er í höndum suður-kóresku fyrirtækjanna Hyundai og Kia.
Honda og Nissan hafa um nokkurt skeið verið að kanna leiðir til að styrkja samstarf sitt, þar á meðal samruna. Í mars sögðust bæði fyrirtækin vera að íhuga samstarf í rafvæðingu og hugbúnaðarþróun. Þau útvíkkuðu samstarfið til Mitsubishi Motors í ágúst.
Rekstur Nissan hefur gengið illa
Í síðasta mánuði tilkynnti Nissan áætlun um að fækka störfum um 9.000 og draga úr framleiðslugetu sinni um 20% á heimsvísu eftir að sala hrundi á lykilmörkuðum í Kína og Bandaríkjunum. Rekstur Nissan hefur verið mjög erfiður síðustu misseri.
Honda greindi einnig frá verri afkomu en búist var við vegna söluhruns í Kína, þó að stöðugur rekstur í mótorhjólum og tvinnbílum hafi hjálpað fyrirtækinu að viðhalda tiltölulega stöðugum fjárhagslegum grunni.
Líkt og aðrir erlendir bílaframleiðendur hafa Honda og Nissan tapað markaðshlutdeild á stærsta markaði heims, Kína, til BYD og annarra innlendra framleiðenda raf- og tvinnbíla sem eru hlaðnir nýstárlegum hugbúnaði.
Renault fylgist grannt með gangi mála
Franski bílaframleiðandinn Renault, stærsti hluthafi Nissan, sagðist myndu "ræða við Nissan og íhuga alla mögulega valkosti". Heimildir hafa greint frá því að Renault sé í grundvallaratriðum opið fyrir samstarfi Honda og Nissan.
Hlutabréf í Honda hækkuðu um 3,8% ,Nissan hækkaði um 1,6% og Mitsubishi Motors um 5,3% eftir fréttir af sameiningaráætluninni í morgun.