Hópmálsókn loks möguleg
Afgreidd hafa verið frá Alþingi lög um hópmálsókn. Til þessa hafa ekki fyrirfundist reglur um hópmálsókn í íslensku réttarfari hún því ekki verið möguleg hér á landi. Reglur um hópmálsókn voru lögfestar í Svíþjóð árið 2003 og í Danmörku, Finnlandi og Noregi árið 2008.
Með þessum nýju lögum er þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings gert mögulegt að gera með sér málsóknarfélag. Félagið rekur síðan í einu lagi mál allra þeirra sem að félaginu standa og gerir eina sameiginlega kröfu fyrir hönd þeirra, í stað þess að þeir hver og einn um sig höfði mál.
Þessi nýju lög eru augljós framför og talsvert fagnaðarefni. Að mati FÍB felst í þeim réttarbót auk þess sem þau eru líkleg til að veita öflugum aðilum á íslenskum fákeppnismarkaði aukið aðhald í sambandi við hverskonar samráð eða hugsanleg samsæri gegn neytendum.