Hópur áhugafólks vill að samgöngur verði greiðar og öruggar fyrir alla ferðamáta
Áhugafólk um samgöngur fyrir alla (ÁS) er hópur fólks sem berst fyrir bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu hefur sett í loftið vefsíðuna www.samgongurfyriralla.com
Hópurinn vill að samgöngur verði greiðar og öruggar fyrir alla ferðamáta og gerðar til muna skilvirkari en nú er og hagkvæmari með tilliti til afkastagetu samgöngukerfisins og umhverfismála.
ÁS fagnar þeim mikilvæga áfanga sem náðist með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Með sáttmálanum sér loks fyrir endann á þeirri kyrrstöðu sem einkennt hefur samgöngumál svæðisins undanfarna áratugi og haft hefur í för með sér ómældan fórnarkostnað í fjárhagslegu og umhverfislegu tilliti.
Markmið samgöngusáttmálans er að ráðist verði að rót þess uppsafnaða vanda sem blasir við í samgöngumálum höfðborgarsvæðins með markvissum aðgerðum í almenningssamgöngum (49,6 ma.kr), stofnvegagerð (52,3 ma.kr), göngu- og hjólastígagerð, bættri umferðarstýringu, auknu umferðarflæði og sértækum öryggisaðgerðum (15,5 ma.kr). Horfa mun til betra vegar með mörgu af því sem sátt hefur náðst um. Því miður verður það ekki sagt um sáttmálann í heild sinni og gera samtökin alvarlegar athugasemdir við eftirtalin atriði.
Almenningssamgöngur
Í stefnu áhugafólksins sem berst fyrir bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hraðvagnakerfið sem verið er að skoða fyrir borgarlínu er allt of dýrt miðað við takmarkaðan ávinning. Reynslan í erlendum borgarsamfélögum sambærilegum höfuðborgarsvæðinu sýnir, að nægjanlegt er að hafa hraðvagnakerfi sem er allt að fimm sinnum ódýrara í stofnkostnaði. Borgarlína í óbreyttri mynd tekur mið af bílaborg með um og yfir eina milljón íbúa.
Almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu virðast eiga að vera tvö, borgarlína og strætó. Mun fleiri farþegar munu þurfa að skipta um vagna.
Borgarlínunni verður helgað sérrými á miðjum götum. Þar sem það verður gert skerðist afkastageta fyrir almenna umferð, með enn frekari umferðartöfum og óþarfa eldsneytiseyðslu.
Stóru vagnar borgarlínunnar valda auknum útblæstri og mengun. Kolefnisjöfnun höfuðborgarsvæðisins verður enn óhagstæðari en áður, m.a. vegna þess hve farþegar verða hlutfallslega fáir m.t.t. umfangs og rekstrar kerfisins.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu áætla að heildar-kostnaður nýju borgarlínunnar geti numið allt að 70 ma.kr. Reynsla annarra þjóða bendir þó til að heildarkostnaður verði mun hærri eða um og yfir 100 ma.kr, sé allt tekið með í reikninginn, s.s. vagnakaup, þjónustumiðstöð og geymslusvæði fyrir hina stóru hraðvagna.
Þessum 70 milljörðum+ er þó einungis ætlað að auka notkun almenningssamganga úr 4% í 12% af heildarferðum á höfuðborgarsvæðinu.
Reynslan erlendis sýnir að jafvel þó að þetta markmið næðist, þá yrði bílaumferð í besta falli 4% minni en ella, þar eð „fyrrverandi“ bílstjórar verða þegar best lætur helmingur af nýjum farþegum. Hinn hluti nýrra farþega verða þeir sem áður höfðu gengið, hjólað eða hefðu ekki ferðast nema af því að strætóþjónustan var bætt.
Ennfremur kemur fram að ÁS varar við þeim verulegu fjárhæðum sem ætlað er að verja í Miklubrautar- og Sæbrautarstokka. Í samanburði við mislæg gatnamót er ávinningur götustokka mjög takmarkaður. Áætlaður stofnkostnaður við þessar framkvæmdir er 31 ma.kr. Fyrir minna en helming af þessari upphæð mætti gera öll gatnamót á Miklubraut mislæg, auk mislægra gatnamóta á Sæbraut við Skeiðarvog og Holtaveg.
SFA telja öll aukagjöld fyrir akstur á höfuðborgarsvæðinu óásættanleg, hvort heldur í formi flýtigjalda allan sólarhringinn eða sérstakt aukagjald á álagstíma, þ.e. tafagjöld. Þá hafa samtökin áhyggjur af því, að þegar notkunargjöld verða sett á í stað núverandi eldsneytisgjalda verði aukagjöld sett á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna hluta af framkvæmdum samgöngusáttmálans, s.s. hækkanir á framkvæmdatíma. Aukagjöld (vegtollar) fyrir umferð um t.a.m. Sundabraut væru þó ásættanleg, enda um kostnaðarfreka einstaka framkvæmd að ræða sem fallið getur að einkaframkvæmd. Þeir ökumenn sem það kjósa hafa jafnframt val um aðra aksturleið(ir) og gjaldfrjálsa(r).
Viðkvæm svæði
Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð Borgarlína verði lögð um mörg mjög viðkvæm svæði t.d. yfir Elliðaárnar; gróin hverfi og miðborg Reykjavíkur og yfir Tjörnina án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir því hvernig þetta yrði gert. Þetta hefði átt að gera í upphafi þessarar vinnu.
Grunnrannsóknir
Komið hefur samtökunum á óvart hversu veikur sá faglegi grunnur virðist vera sem samgöngusáttmálanum er ætlað að byggja á. Mikilvægt er að horft sé til annarra borgarsamfélaga af svipaðri stærð og gerð og höfuðborgarðsvæðið er í leit að fýslilegum fyrirmyndum og útfærslum. Þá verða faglegar stoðir fyrirhugaðra framkvæmda að hvíla á vönduðum grunnrannsóknum á ferðavenjum, íbúaþróun og áhrifum snjallvæðingar og fjórðu iðnbyltingarinnar á samgöngumál, svo að eitthvað sé nefnt.
Þá kom ekki síður á óvart hversu litlum ábata hið nýja almenningssamgöngukerfi mun í raun skila fyrir umhverfisþátt framkvæmdanna.