Horfnir góðhestar!

MSN-fréttavefurinn Newsvine.com vill komast að því hvaða horfins bílmerkis eða -merkis sem verið er að leggja niður, er mest saknað. Saab, sem flest bendir til að sé að hverfa á braut, er mjög ofarlega hugum þeirra sem atkvæði hafa greitt, en einnig Pontiac og Oldsmobile.

http://www.fib.is/myndir/MSNbc.jpg
 

 Fréttavefurinn Newsvine.com er bandarískur og því vekur það nokkra undrun hversu bandarískum bílaáhugamönnnum er Saab ofarlega í huga af þeim bílum sem slegnir hafa verið af eða eru við það að hverfa af sjónarviðinu.

En Netið og þeir fréttamiðlar sem þar eru, er vissulega ekki fyrir Bandaríkjamenn eina og þú, ágæti lesandi, getur líka greitt atkvæði hér, þótt ekki sértu Bandaríkjamaður. Þegar þessi orð voru skrifuð var Saab lang efst þeirra merkja sem sárast og mest er saknað, enda þótt örlög þessa ágæta bílamerkis séu ekki enn að fullu ráðin.

En hvort niðurstöður svona könnunar séu marktækar er auðvitað allt önnur saga. Bílamerki hafa komið og farið í rás tímans og hvað með Saturn sem var talsvert öflugt vörumerki í Bandaríkjunum fyrir einungis tveimur árum? Og hvað með Rambler og AMC, Studebaker, Packard, Hudson, Duesenberg, De Soto, Kaiser og mörg fleiri?