Hraðbrautarbrú við Álaborg hrynur
Vegbrú yfir E45 hraðbrautina á Norður-Jótlandi í Danmörku hrundi sl. þriðjudagsmorgun. Brúin var í endurbyggingu og varð tæplega sextugur byggingaverkamaður undir henni og lét lífið. Mildi þykir að enginn bíll var á hraðbrautinni undir brúnni þegar hún hrundi.
Þegar brúin hrundi var hópur starfsmanna verktakafyrirtækisins sem vinnur að endurbyggingunni að störfum á brúnni við að undirbúa það að steypa hluta brúargólfsins. Skyndilega gáfu undirstöður sig og gólfið og uppslátturinn hrundi nánast í heilu lagi niður á hraðbrautina fyrir neðan. „Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds að hugsa til þess hvað hefði gerst ef brúin hefði hrunið á há-umferðartíma,“ segir lögregluvarðstjóri í Álaborg í samtali við Ritzau fréttastofuna.