Hraðbrautarskattur í Þýskalandi frá 2016?
Þýska þingið hefur samþykkt með skýrum meirihluta að innleiða vegaskatt sem eingöngu leggst á erlenda bíla frá og með næsta ári. Skatturinn verður innheimtur fyrir akstur á hraðbrautum og þjóðvegum. Fyrirkomulag gjaldheimtunnar verður þannig að erlendir ökumenn geta keypt sérstakan límmiða í framrúðuna til staðfestingar á því að gjaldið sé greitt. Gildistími verður þrennskonar: 10 dagar, tveir mánuðir eða eitt ár. Bifreiðaklúbbar í mörgum grannlöndum Þýskalands telja gjaldtökuna brjóta í bága við lög EES og óttast að taki Þýskaland upp gjaldtöku þessa reyni fleiri EES ríki að fylgja fordæmi Þýskalands.
Vegaskatturinn nefnist Pkw-Maut og er nýmæli því að akstur erlendra bíla hefur ætíð verið gjaldfrjáls í Þýskalandi. Sérstakt hraðbrautagjald hefur hins vegar um all langt skeið verið innheimt af akstri erlendra bíla á hraðbrautum Frakklands, Austurríkis o.fl ríkja. Akstur á öðrum þjóðvegum hefur hins vegar verið gjaldfrjáls. Samkvæmt EES-lögum er óheimilt að rukka einungis útlendinga um svona vegaskatt en ekki heimafólk. Hjá því hyggst þýska þingið komast með því að beita lagatæknilegum útúrkrókum og innheimta veggjöldin hjá heimamönnum einnig, en endurgreiða þeim síðan gegn um innheimtukerfi bifreiðagjalda. sem þeir greiða. Þetta telja bíleigendafélög eins og FDM, systurfélag FÍB í Danmörku, heldur auman lagakrók því niðurstaðan sé sú að einungis erlendir ökumenn greiði gjaldið og því sé þeim mismunað.
Þýsk stjórnvöld segja gjaldið einungis til þess fallið að umferð erlendra bíla greiði eðlilegt gjald fyrir slit og viðhald veganna. FDM og reyndar þýska bíleigendafélagið ADAC einnig, segja að það geri útlendingarnir þegar og gott betur því að um leið og þeir kaupa eldsneyti, greiði þeir vegaskatta sem innifaldir eru í verði eldsneytisins. Þá muni tekjur af vegasköttunum ekki skila þýska ríkinu þeim 700 milljóna evra tekjum sem vænst er. Minnst helmingur teknanna muni nefnilega fara í innheimtukostnað að mati FDM. Það telur ADAC hins vegar talsvert vanáætlað því að umsýslan muni fara langt með að éta upp allar milljónirnar 700 og að innheimtukerfið og allt í kring um það eigi eftir að verða bæði þungur og vandræðalegur baggi á samfélaginu öllu og álitshnekkir fyrir Þýskaland.