Hráolían lækkar
Goldman Sachs fjárfestingabankinn sem hefur verið í fararbroddi á Wall Street varðandi spár um hækkandi olíuverð taldi í gær líkur á að hráolíuverð færi lækkandi næstu misserin. Bankinn ráðlagði fjárfestum að selja og losa inn hagnað af olíukaupum.
Hráolíutunnan fór í 93.80 Bandaríkjadali í vikunni sem er sögulegt verðmet. Varnaðarorð sérfræðinga Goldman Sachs hafa greinilega áhrif á markaðinn því í kjölfarið hefur hráolíuverðið í Bandaríkjunum lækkað. Olíutunnan á Texas markaðnum lækkaði um 2.73 USD í gær. Evrópuverðin á Brent markaðnum hafa verið heldur lægri en á Bandaríkjamarkaði og fóru yfir 90 USD í vikunni en lækkuðu í gær um 2.90 USD og standa nú í um 87 USD.
Nokkrir sérfræðingar vara eftir sem áður við ástandinu sem þrýsti verðum upp. Þarna kemur til veik staða Bandaríkjadals, mikil og vaxandi eftirspurn eftir olíu, lítt friðvænlegt ástand í Mið-Austurlöndum og spákaupmennska. Mat sumra er að spákaupmennska geti haldið oliuverði uppi til skamms tíma en að fljótlega á næsta ári lækki það ört.
Talsmenn Opec olíuframleiðsluríkjanna sem stjórna um 40% af heimsframleiðslunni segja að samtökin hafi ekki hag af því að hráoliuverð sé yfir 90 USD á tunnu. Mohammed bin Dhaen al-Hamli forseti Opec segir aðila samtakanna hafa áhyggjur af háu olíuverði. Al-Hamli sagði Opec ríkin tilbúin að útvega meiri olíu ef þörf væri á því.
Bandarísk og kínversk stjórnvöld þrýstu í vikunni á Opec ríkin að auka framleiðslu sína til að draga úr verðþrýstingi vegna ónógs framboðs.