Hráolian lækkar en bensínið hækkar

The image “http://www.fib.is/myndir/Oliutunna.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Samkvæmt fréttum Bloomberg News í gærmorgun heldur hráolíuverð áfram að lækka. Í fréttinni segir að skemmdir á olíuhreinsunsrstöðvum vegna fellibylsins Rítu dragi úr afkastagetu hreinsunarstöðva og þar með eftirspurn eftir hráolíu.
Dýrara bensín
Á sama tíma hækkar bensínverð.  Ástæðan er mikill samdráttur í olíuhreinsun.  Bensín og dísilolía eru unnar olíuvörur og framboð á þessum vörum annar ekki eftirspurn á markaði.  Á sama tíma er framboð á hráolíu meira en hægt er að vinna úr í oliuhreinsunarstöðvum. Það hljómar eins og öfugmæli að hráefnið lækki og á sama tíma hækki unna varan en þarna bitnar minni framleiðslugeta á neytendum.
Sjö olíuhreinsunarstöðvar í Port Arthur og Beaumont í Texas og Lake Charles í Louisiana eiga meira en mánuð í það að ná upp fyrri framleiðslugetu. Til viðbótar er enn þá um 5% minni framleiðslugeta hjá  olíuhreinsunarstöðvum eftir fellibylinn Katrínu.
Framleiðslusamdrátturinn er meiri en samdrátturinn í framboði á hráolíu eftir hamfarirnar við Mexíkóflóa. Talið er að framleiðsla olíuhreinsunarstöðva hafi dregist saman um 2 milljónir tunna á dag en framboð á hráolíu hefur dregist saman um 1,5 milljónir tunna.  Ljóst er að markaðurinn óttast að framleiðslan verði takmörkuð áfram enda náði bensínverð í gærmorgun að hækka í svipuð verð og voru á markaðnum 2. september s.l.