Hreinorkubílum þarf að fjölga
Íslendingar eru framarlega á sviði rafbílavæðingar og eru þar í öðru sæti á heimsvísu á eftir Norðmönnum. Hreinorkubílar erum um 3,9% af fólksbílafjölda í heild sinni á Íslandi en heildarfjöldi bíla hér á landi er um 227 þúsund.
Hreinorkubílar þurfa að vera orðnir 100 þúsund fyrir árið 2030 svo Íslendingar nái að uppfylla kröfur Parísarsamkomulagsins sem undirritað var 2015. Þetta kemur fram í umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.
Fram kemur að Íslendingar hafa þrengra svið að vinna með til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis heldur en aðrar þjóðir enda öll raforkuframleiðsla og húshitun hér með kolefnislausum orkugjöfum.
Því þarf að vinna með samgöngur og þar skiptir bílafloti landsmanna sköpum. Heildarfjöldi hreinorkubíla á Íslandi er um níu þúsund og því ljóst að mikið verk er óunnið segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, í ViðskiptaMogganum.