Hreinsun gatna á stofnæðum hófst síðastliðna nótt
Með hækkandi sól fer af stað hreinsun gatna og stíga á höfuðborgarsvæðinu. Hreinsun gatna á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu hófst síðastliðna nótt. Áfram verður haldið á næstu dögum á meðan áfram er milt í veðri eins og veðurspár gera reyndar ráð fyrir.
Sveinn Bjarnason, rekstrarstjóri hjá Hreinsitækni, sem eru verktakar Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir séu smám saman að koma sér í gang. Það sé núna fyrst hægt að fara af stað. Óskir um hreinsun gatna og á þjóðvegum í þéttbýli hefðu þegar borist frá Vegagerðinni og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
,,Við erum hægt og sígandi að koma okkur af stað í þetta verkefni. Óskir um þjónustu eru farnar að berast inn á borð til okkar. Við verðum verðum að fara varlega í þessum efnum en víða leynist ennþá klaki á götum og þá alveg sérstaklega í húsgötum,“ sagði Sveinn Bjarnason í spjalli við FÍB.
Allar stofnbrautir og tengigötur, sem og helstu göngu- og hjólastígar eru allan jafnan hreinsaðar fyrst. Þessar meginleiðir liggja þvert um borgarlandið og njóta því forgangs. Í framhaldi verður farið skipulega um hverfin og húsagötur sópaðar og þvegnar svo framarlega að áfram verði hlýtt og milt í veðri.
Á upplýsingavef Reykjavíkurborgar kemur fram að frá 15. nóvember til 14. apríl er miðbærinn hreinsaður fjóra daga vikunnar. Frá 15. apríl til 15. Nóvember er miðbær Reykjavíkur hreinsaður daglega frá kl. 06.00 til 09.00. Miðbærinn er sápuþveginn að meðaltali aðra hverja viku og tjarnarbakkinn hreinsaður vikulega.