Hringvegurinn allur opinn á ný
Í dag var umferð hleypt á nýja bráðabirgðabrú yfir Steinavötn og er þá Hringvegurinn allur opinn á ný. Brúin yfir Steinavötn laskaðist í miklum vatnavöxtum á fimmtudag í síðustu viku þegar grófst undan einum stöplinum. Þegar var hafist handa við smíði bráðabirgðarbrúar sem nú er opnuð allri umferð sex dögum síðar.
Smíði brúarinnar gekk vonum framar en bráðbirgðabrúin er um 104 m löng einbreið brú. Sú gamla var einnig einbreið. Byggð verður ný tvíbreið brú á sama stað og sú gamla er. Nýja brúin verður tvíbreið.
Reikna má með að það líði 2-3 ár áður en hægt verður að aka yfir nýja varanlega brú. Reikna má einnig með að sú brú geti kostað allt að 700 milljónir króna.
Smíði bráðabirgðabrúarinnar gekk vel enda samhentur hópur Vegagerðamanna að verki þar sem margir búa enn að reynslunni þegar svipuð, en heldur lengri brú, var byggð yfir Múlakvísl árið 2011. Vegagerðin á alla jafna efni í að minnsta kosti 300 m af brúm af þessu tagi. Rarik á til reiðu staurana til að reka niður.
Vegagerðin er alltaf með tilbúna stálbita, sem eru bitar úr aflögðum brúm, þar á meðal bráðabirgðabrúnni yfir Múlakvísl. Og til reiðu er alla jafna efni í brúargólf, vegrið og annað sem þarf til að smíða slíkt mannvirki.