Hröð þróun í orkuskiptum – hreinorkubílum fjölgar stöðugt
Samorka kynnti á ársfundi sínum í vikunni niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.
Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.
Orku- og veitufyrirtækin hafa undirbúið sig um þó nokkurt skeið undir orkuskipti í samgöngum, þar sem þróunin er hröð og hreinorkubílum fjölgar stöðugt á götum landsins.
Fram kemur hjá Samorku að fyrirtækin hafa stóru hlutverki að gegna í orkuskiptunum og þau hafa unnið að undirbúningi þeirra um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Orku- og veitufyrirtækin hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla og hafa auk þess tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.
Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.