HUGLEIÐING UM NAGLADEKK OG VETRARAKSTUR

The image “http://www.fib.is/myndir/Nagladekk.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hvernig væri nú að snúa dæminu við og skylda veghaldarann til að hálkuverja þannig að ekki þurfi nagladekk í stað þess að velta allri ábyrg á óhöppum á vegum landsins yfir á bíleigendur og leggja á þá skatta á skatta ofan? Þessu og fleiru í sambandi við vetrarakstur veltir greinarhöfundur , Björn Sigurðsson á Húsavík fyrir sér. Björn Sigurðsson rekur flutninga- og bílaþjónustufyrirtæki á Húsavík. Hann er dyggur félagsmaður FÍB og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Notkun nagladekkja hefur verið frekar á undanhaldi síðustu ár sem skapast bæði af því að vetrarfærð hefur verið betri en áður og ekki síður vegna þess að veghaldarar hafa loks komist inn í 20. öldina. Spurning er svo hvað þarf að bíða lengi eftir því að þeir átti sig á að hér er komin 21 öldin.
Allavega er það svo að við sem notum vegina mikið eigum í dag kost á að nota betri vetrardekk en áður eins og loftbóludekk, harðkornadekk og ef til vill fleiri.
Einnig hafa veghaldarar að sumu leyti tekið sig á með hálkuvarnir. Hér á árum áður voru notaðar riflaðar tennur á veghefla til að rífa svell, síðan fundu vegagerðarmenn það út að það væri möguleiki á skemmdum á slitlagi ef rispað var niður í slitlag sem gerðist oftar en ekki fyrir það að vegurinn undir var með mishæðir eða frostlyftingu þannig að tönn hefilsins náði þá í bunguna og í stað þess að taka þessa bungu næsta sumar og gera veginn þar með betri og öruggari þá var bannað að nota þessi blöð.
Nú bregður svo við í vetur að öll svona blöð seldust upp vegna þess að það hefur komið í ljós að þetta er í mörgum tilfellum besta hálkuvörnin fyrir utan að þetta er stundum eina leiðin til að laga svell og mishalla við brýr og önnur mannvirki. Einnig má hrósa  Vegagerðinni fyrir aukna hálkuvörn með því að sanda og salta betur en áður.
Því miður er það þó svo að þarna þarf að gera betur og það grátlegasta er að oft á tíðum er það ekki mjög mikið sem þarf að gera til viðbótar annað en að veghaldarar átti sig á þeirri ábyrgð sem þeir ættu að bera á því að vegir skuli vera akfærir.
Sem dæmi þá er hálkuvörn í Námaskarði ætíð til fyrirmyndar en í marga daga voru miklir svellbunkar og stórhættulegar aðstæður á láréttum Þjóðvegi 1 á smá kafla austan Námaskarðs látnar eiga sig. Það var sama við hvern var talað, það mátti hvorki rífa þetta né sanda sem er algjörlega óásættanlegt miðað við þá gríðar umferðaraukningu sem orðin er bæði þarna og annarsstaðar á landinu og skapar mikinn tekjuauka til handa Vegagerðinni.
Nú bregður svo við að allir fjölmiðlar hafa dögum saman verið fullir af fréttum um ófarir Steingríms Sigfússonar alþingismanns nýlega. Svo merkilegt sem það er þá er í þessum fréttum ekki vera fjallað um ástand vegarins öðruvísi en sem sjálfsagðan hlut að það hafi verið hálka á veginum. Mikið væri hins vegar fróðlegt að fá umræðu um ástandið á vegarkaflanum þar sem óhappið varð – og á vegunum yfirleitt -  og þær hálkuvarnir sem þarna ættu að vera.
Ég þekki persónulega að Steingrímur er bæði gætinn og góður bílstjóri fyrir utan það að vera á mjög góðum bíl og mér hefur verið tjáð að bíll hans hefði verið á nagladekkum. Þarna er því að mínu viti ekki nokkur spurning um það að ef veghaldari hefði gert það sem honum ber að gera til að halda veginum greiðfærum, þá hefði þetta slys ekki orðið.
Til hvers erum við í öllum þessum Evrópusamtökum ef það á bara endalaust að virka á þann veg að eilíflega sé hægt að kúska bíleigendur og draga þá og bílstjóra til ábyrgðar á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum? Fyrir mig var lesin klásúla að mig minnir frá Þýskalandi. Í henni sagði á þá leið að sé hálka svo mikil að það þurfi keðjur, þá teljist vegur ófær. Það þýðir sem sé að ef veghaldari nær ekki að hálkuverja og laga veg þannig að hann sé öruggur og auglýsir ekki í framhaldi af því veginn lokaðan, þá er hann ábyrgur fyrir því sem kann að gerast á veginum.
Nú fer fram mikil umræða um nagladekk í Reykjavík og helsta ráðið sem yfirvöld sjá virðist vera það að bæta enn einum nýjum skatti á bíleigendur - nagladekkjaskatti. Hvernig væri nú að snúa dæminu við og skylda veghaldarann til að hálkuverja þannig að ekki þurfi nagladekk? Myndi það þá ekki liggja í augum uppi að veghaldarinn yrði að greiða sektir ef hann ekki stendur sig og alveg það sama myndi eiga við Vegagerðina? Allavega er það í mínum huga alveg ljóst að yfirvöld verða að finna aðra lausn en endalaus boð, bönn og skatta á skatta ofan á bíleigendur.
Að lokum þetta: Ég mun vera einn af þeim fyrstu hér um slóðir sem notaði nagladekk veturinn 1964 og það með mjög góðum árangri því þá strax komu fram á sjónarsviðið stjörnunaglar og mikið meiri hálka var á vegum. Áður en nagladekkin komu og stjörnunaglarnir var ekki um neitt annað að ræða en keðjur sem voru afskaplega viðhaldsfrekar í miklum akstri.
Eftir að stjörnunaglar voru bannaðir og ég búinn með minn lager af þeim, þá kom í ljós að þeir naglar sem notaðir hafa verið síðan eru flestir mikið lélegri. Jafnframt eru vegir orðnir betri þannig að ekið er hraðar og naglar brotna fljótt og missa virknina ef vegur er auður eða mikið frosinn.
Undanfarna vetur eða frá 2001 höfum við hjá mínu fyrirtæki minnkað mjög notkun á nöglum og raunar hættir því núna vegna þess að það eru á markaðnum mikið betri dekk og hálkuvarnir sömuleiðis betri en áður. Raunar vantar bara herslumun til að þær dugi hér um slóðir. Einnig er ég með bíl í Reykjavík og hef undanfarna vetur verið með hann á loftbóludekkjum og komist minna ferða á þeim hingað til. En nýlega var bíllinn í Reykjavík endurnýjaður og fylgdu þeim nýja nagladekk sem eru undir núna. Enda þótt að í dekkjunum séu nýir naglar þá verður að segjast að þeir gera mjög takmarkað gagn þótt nýjir álnaglar séu.
Með kveðju.
Björn Sigurðsson