Hulunni svipt af nýjum Kia e-Soul
Hulunni var svipt af nýjum Kia e-Soul rafbíl á Alþjóðlegu bílasýningunni í Los Angeles í gær. Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir annarri kynslóð þessa netta fjölnotabíls frá Kia en forveri hans Kia Soul EV hefur verið mjög vinsæll víða um heim.
Nýr e-Soul er 100% rafbíll og hefur því engan útblástur. Drægi bílsins er 485 km miðað við WLTP nýjan staðal um drægni og orkunotkun. Hleðslubúnaður bílsins er nýr og fljótvirkari en áður. Bíllinn er með nýjar og öflugar 64 kWh rafhlöður sem skila honum 204 hestöflum og togið er 395 NM.
Önnur kynslóð bílsins er talsvert breytt í útliti frá forveranum og hönnunin er nútímalegri og djarfari en áður. Innanrýmið hefur einnig tekið breytingum þar sem meiri tækni og enn meiri þægindi verða í boði. Kia e-Soul er nettur fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum auk þess sem sætin eru há og útsýni gott. Bílaumboðið Askja mun hefja sölu á nýjum e-Soul á næsta ári.
Kia kynnti einnig nýlega til leiks e-Niro, 100% rafbíll sem er nýjasta útfærslan af hinum vinsæla Kia Niro. Það er því mikið að gerast hjá Kia í rafbílavæðingunni og augljóslega spennandi tímar framundan hjá suður-kóreska framleiðandanum en Kia Soul og Kia Niro hafa notið mikilla vinsælda hér á landi undanfarin ár.