Hummer fyrir fatlaða

Verksmiðja GM þar sem Hummer H2 var áður skrúfaður saman er ekki iðjulaus þótt búið sé að leggja af Hummer-framleiðsluna. Nú er framleiddur þar bíllinn MV-1. MV stendur fyrir  Mobility Vehicle. Bíllinn er frá grunni hannaður og byggður út frá þörfum þeirra sem bundnir eru við hjólastól.

http://www.fib.is/myndir/Fatlabill2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Fatlabill5.jpg
http://www.fib.is/myndir/Fatlabill4.jpg
http://www.fib.is/myndir/Fatlabill3.jpg

Í Bandaríkjunum eru allmargar bílasmiðjur sem breyta sendibílum (svokölluðum vans) að þörfum hreyfihamlaðra. Það eru ekki síst „vans“ af minni gerðinni, eins og Chrysler Voyager sem teknir eru í slíkar breytingar. En fyrrnefndur MV-1 er enginn breyttur bíll heldur er byggður frá grunni sem bíll fyrir hina hjólastólabundnu.

Fyrirtækið sem hannað hefur bílinn og leigir Hummerverksmiðjuna til að byggja hann heitir Vehicle Production Group í bílaborginni Detroit. Það fékk annað bílafyrirtæki sem heitir  Roush Performance til að hanna bílinn frá grunni. Roush Performance er nokkuð þekkt fyrirtæki í Bandaríkjunum fyrir það að breyta sportlegum bílum í ofurtryllitæki sem ná hundraðinu á fjórum sekúndum og komast á minnst 300 km hraða.

MV-1 er reyndar alls ekki þesskonar bíll. Hann er þó sæmilega öflugur því að vélin er 248 hestafla V8 bensínvél frá Ford. MV-1 kostar tilbúinn til notkunar í kring um 55 þúsund dollara. Margir fatlaðir eiga hins vegar kost á margskonar styrkjum til bílakaupa. Þannig fá t.d. fyrrverandi hermenn sem hafa misst hreyfigetu sína í stríðsátökum styrk til bílakaupa sem nemur 40 þúsund dollurum.

Framleiðslan er enn á byrjunarstigi en samkvæmt áætlunum á hún að ná 6 þúsund eintökum árlega árið 2016. Það er vissulega ekki mikið á mælikvarða vinsælla fólksbíla, a.m.k. ekki enn sem komið er. Það gæti þó aukist ef bíllinn fellur markhópnum vel í geð. Staðreyndin er nefnilega sú að fjöldi Bandaríkjamanna sem bundnir eru hjólastólum er hvorki meira né minna en vel á fjórðu milljón manns. Einungis 3,5% þeirra hafa yfir bíl að ráða sem rúmað getur ósamansettan hjólastól.

Ennfremur má segja að framtíðin lofi nokkuð góðu fyrir framleiðsluna því að meðalaldur fer hækkandi og eftirlaunafólk sem náð hefur 65 ára aldri er margt hvert líklegt til að lifa lengi og margt af því mun missa hreyfigetu sína og og verða bundið við hjólastól. Og aldurshópurinn 65 ára stækkar hratt í Bandaríkjunum og um 10 þúsund manns ná 65 ára aldri á hverjum einasta degi að því talið er.