Hummer hættir
Stjórn General Motors ákvað í vikunni að hætta endanlega framleiðslu á Hummer og leggja vörumerkið niður. Fullreynt þykir að finna kaupanda að vörumerkinu og framleiðslunni, en Kínverskar bílasmiðjur sýndu Hummer einhvern áhuga um tíma. Reyndar hefur framleiðsla legið niðri um skeið vegna sölutregðu. Um 2.200 bílar sem eftir eru á lager GM verða seldir á útsölu í Bandaríkjunum. Útsalan stendur út þennan mánuð. Um þrjú þúsund starfsmenn missa vinnuna.
Hummer útsalan er þannig að kaupendum stendur til boða annaðhvort ríkulegur staðgreiðsluafsláttur upp á 4 þúsund dollara af 2010 árgerðinni og 5 og 6 þúsund dollara af 2009 árgerðinni. Þeir sem ekki eiga fyrir staðgreiðslunni geta fengið vaxtalaust lán fyrir kaupverðinu til 72 mánaða.
Um 3.000 manns í tveimur samsetningarverksmiðjum Hummer missa störf sín nú og forstjóri Hummer hætti störfum sl. þriðjudag, þegar ákvörðunin um örlög Hummer lá fyrir.
Mestur gangur var í Hummerframleiðslu- og sölu árið 2006. Það ár seldust 71.524 bílar. Salan hrundi svo þegar fjármálakreppan hófst haustið 2008 og í fyrra seldust undir 10 þúsund Hummer bílar.
GM ábyrgist að allar verksmiðjuábyrgðir á Hummerbílum verði uppfylltar og varahlutir og þjónusta verði til staðar og með eðlilegum hætti þótt framleiðslunni á bílunum sé nú endanlega lokið.