Hundrað þúsund Nissan Leaf hafa selst í Evrópu
Þau merku tímamót urðu í liðinni viku að hundrað þúsundasti bíllinn af tegundinni Nissan Leaf var nýskráður eiganda sínum. Undanfarna rúma sjö mánuði hafa Evrópubúar lagt inn pöntum fyrir meira en 37 þúsund nýjum Leaf. Eitt hundrað þúsundasti bíllinn af tegundinni Nissan Leaf var seldur í Madríd.
Mikil vakning er fyrir rafbílum um allan heim og er íslenski markaðurinn ekki undanskilinn í þeim efnum. Nýskráningum rafmagnsbíla það sem af er árinu 2018 hefur fjölgað um meira en helming frá sama tímabili 2017.
Samkvæmt upplýsingum á vef Orkuseturs var 781 rafbíll tekinn á skrá fimm fyrstu mánuði 2017. Frá byrjun árs 2018 eru þeir hinsvegar orðnir 1.200. Fjölgunin er 54%.
Eins og áður hefur komið fram er gríðarleg eftirspurn eftir þessum bílum í Kína og víðar í Asíu. Þar um slóðir hefur salan aldrei verið meiri.