Hunsa stöðvunarskylduna
Systurfélag FÍB í Svíþjóð hefur kannað hversu ökumenn hlýða boði stöðvunarskyldumerkisins, þess umferðarmerkis sem myndin er af. Merkið stendur við gatnamót og þýðir það að það ber skilyrðislaust að stöðva ökutækið við merkið áður en ekið er inn á gatnamótin. Í ljós kom að 33 prósent allra ökumanna stöðvaði ekki við skiltið. Atvinnubílstjórar voru verstir. Einungis 31 prósent þeirra stöðvaði.
Sænska bifreiðaeigendafélagið Motormännens gerði skoðunarfólk út af örkinni í 15 sveitarfélögum um alla Svíþjóð. Athugunin fór fram á háannatímum. Skráð voru samtals 4672 atvik og þetta er niðurstaðan. Starfsmaður félagsins sem sá um þessa athugun segir að niðurstaðan sé fremur dapurleg en komi þó ekki á óvart. Ef þeir væru fleiri sem hlýddu fyrirmælum þessa skiltis myndi draga úr slysum og almennt umferðaröryggi aukast. Hann sagði að mótorhjólafólk hlýddu skiltinu betur en aðrir, trúlega vegna þess að það er meðvitaðra um hættuna og að það sjáist verr.
Svipaða sögu væri að segja af kvenökumönnum. Konurnar hefðu sýnt sig að vera hlýðnari en karlarnir. 30 prósent þeirra stöðvuðu ekki við Stop skiltin en 33 prósent karla stansaði ekki.