Hvað er bíllinn gamall?
Það er ekki viðunandi lengur að neytendur fái þær einu upplýsingar um aldur bíla úr hinni opinberu bifreiðaskrá, hvenær bíll var fyrst skráður á Íslandi. Dagsetning fyrstu skráningar bílsins segir nefnilega alls ekki til um hversu gamall bíllinn er í raun. Dæmi eru um bíleigendur sem komust að raun um það þegar þeir ætluðu að selja bílinn, að hann var tveimur eða þremur árum eldri og að sama skapi verðminni en mátt hefði ætla. Þetta þýðir það jafnframt að þegar viðkomandi hélt sig vera að kaupa nýjan bíl, var í raun og veru verið að selja honum gamlan bíl - ónotaðan að vísu.
Mál sem varða aldur bíla koma mjög oft til kasta FÍB fyrir hönd félagsmanna og mörg þeirra ganga áfram til úrskurðarnefndar í lausafjár- og þjónustukaupamálum og í stöku tilfellum áfram þaðan til dómstóla. Koma mætti auðveldlega í veg fyrir flest þessara mála á einfaldan hátt: með því að skrá í bifreiðaskrá framleiðsludag eða –viku bíla og árgerð til viðbótar við fyrsta skráningardag. Með þessu móti fengju neytendur þessar mikilvægu upplýsingar óbjagaðar og milliliðalaust og gætu framvegis verið nokkuð öruggir um að kaupa ekki köttinn í sekknum, það er að segja bíl sem staðið hefur á einhverjum hafnarbakka eða geymslusvæði óvarinn, jafnvel árum saman.
Margir bílaframleiðendur, en alls ekki allir, setja upplýsingar um framleiðsluviku eða mánuð bíla í kennitölu þeirra (VIN-númer eða framleiðslunúmer) En þessar upplýsingar, ef þær á annað borð er að finna í kennitölunni, eru kóðaðar og alls ekki alltaf skiljanlegar né aðgengilegar og bílaumboð jafnvel neita að upplýsa um hvað þær þýða.
Hér á árum áður voru bifreiðar skráðar í bifreiðaskrá eftir árgerð og/eða framleiðsluári þeirra. Þannig skapaðist hefð fyrir því að greina aldur bíla eftir árgerð. Sú breyting sem gerð var fyrir nokkrum árum að skrá bíla eftir fyrsta skráningardegi hefur valdið ruglingi í hugum margra og margvíslegum vanda, eins og þeim sem lýst hefur verið hér að framan, en einnig við útvegum varahluta, en fjallað verður nánar um það í næstu grein um þetta efni sem birtist á morgun hér á FÍB vefnum.