Hvað kostar eldsneytið á bílinn?
Orkusetrið á Akureyri hefur sett út á heimasíðu sína reiknivélar til afnota fyrir almenning. Með hjálp þeirra getur fólk séð hversu mikið það kostar að aka bílnum á ári miðað við ekna kílómetra og miðað viðuppgefna eldsneytiseyðslu hans samkvæmt staðlaðri Evrópumælingu. Með hinni reiknivélinni má, miðað við gefnar forsendur , sjá hversu mikið það kostar að aka bílnum tilteknar vegalengdir innan- eða utan þéttbýlis.
Orkusetur er stofnað af iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun og styrkt af Evrópusambandinu auk þess sem KEA og Samorka koma að fjármögnun setursins. Hlutverk þess er m.a. að miðla upplýsingum um orkumál til almennings og stjórnvalda, hvetja til skilvirkrar orkunotkunar, finna leiðir til bættrar orkunýtni og stuðla að minni notkun á jarðefnaeldsneyti á farartæki og að kynna nýja tækni í samgöngum. Þessar nýju reiknivélar á heimasíðu Orkuseturs eru þannig gott áhald til þess að bera saman allskonar bíla, eyðslu þeirra og eldsneytiskostnað.
Reiknivélarnar eru gagnvirkar þannig að notandinn getur , eftir að hafa kallað fram þann eða þá bíla sem hann vil skoða eða bera saman, slegið inn eigin forsendum eins og fjölda ekinna kílómetra og eldsneytisverði á hverjum tíma. Á augabragði reiknar reiknivélin út eldsneytiskostnaðinn út frá þessum forsendum en gefur jafnframt upp hversu mikinn koltvísýring bíllinn/bílarnir gefa frá sér og hversu há bifreiðagjöldin eru á ári. Með hjálp reiknivélanna getur fólk því borið saman einstakar bílategundir og gerðir með þessum hætti sem er ekki ónýtt á tímum hás og hækkandi eldsneytisverðs.
Með reiknivélinni sem reiknar út eldsneytiskostnað af einstökum ferðum er hægt að sjá á augnabliki eldsneytis- og umhverfiskostnað við innanbæjar- og utanbæjarakstur miðað við valdar vegalengdir. Fyrir innanbæjarakstur er fjöldi kílómetra valinn en fyrir utanbæjarakstur er brottfarar- og áfangastaðir valdir af lista. Með þessari reiknivél er hægt að sjá hversu mikill aksturskostnaðurinn er líklegur til að verða í sumarfríinu framundan.
Slóðin inn á heimasíðu Orkuseturs er http://www.orkusetur.is/ Þegar þangað er komið skal smella á „Reiknivélar“ neðst á listanum til vinstri.