Hvað setur ríkið mikla fjármuni í vegasamgöngur?
Samkvæmt Hagstofunni voru útgjöld ríkissjóðs til vegasamgangna rúmlega 52 milljarðar króna árið 2021 (tölur fyrir 2022 ekki komnar). Útgjöld Vegagerðarinnar til vegasamgnanga árið 2021 voru hins vegar tæpir 42 milljarðar króna. Þarna munar 10 milljörðum og full ástæða til að leita skýringa á þessu misræmi.
FÍB fékk Vegagerðina til að sundurliða þá útgjaldaliði sem heyrðu undir stofnunina á árinu 2021. Sú samantekt sýnir að alls fóru 47,4 milljarðar króna í rekstur og fjárfestingar á vegum Vegagerðarinnar. Af því höfðu 5,8 milljarðar hins vegar ekkert með vegasamgöngur að gera, heldur voru það niðurgreiðslur fyrir farþega strætó, ferja og innanlandsflugs, svo og framkvæmdir við vita og hafnir. Raunveruleg útgjöld til vegasamgangna voru því tæplega 42 milljarðar króna.
Ekki fengust upplýsingar frá Hagstofunni á þessu 10 milljarða króna misræmi aðrar en þær að þarna væri um að ræða samanlagðar fjárfestingar ríkissjóðs í málaflokki 0451 (vegasamgöngur) upp á 30,5 milljarða króna og útgjöld Vegagerðarinnar (22 milljarðar króna árið 2021 samkvæmt ársreikningi).
Það er bagalegt að ekki skuli vera til skýr mynd af útgjöldum ríkissjóðs til vegasamgangna. Hvort eru það 52 milljarðar eða 42 milljarðar? Hvers vegna eru 5,8 milljarða króna óviðkomandi útgjöld flokkuð undir vegasamgöngur?
Á skattadegi Deloitte í janúar fullyrti hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins (SA) að útgjöld ríkisins til vegasamgangna hefðu verið 52 milljarðar króna árið 2021 og hafði þær upplýsingar bersýnilega frá Hagstofunni. "Stoppað í götin - Fjármögnun vegakerfisins"
Á grundvelli þessara upplýsinga fullyrti hagfræðingurinn að tekjur ríkisins af bílum og umferð stæðu ekki undir kostnaði í vegasamgöngum. Hinn almenni skattgreiðandi stæði því undir meðgjöf ríkisins til vegakerfisins. Þetta er einfaldlega rangt, tekjur ríkissjóðs af notkun ökutækja eru um 50 milljarðar króna á ári með virðisaukaskatti og aðrar tekjur af innflutningi ökutækja og þjónustu við þau skila tugum milljarða til viðbótar. Aftur á móti er það rétt sem hagfræðingurinn benti á við þetta tækifæri, að tekjur af hverjum bíl hafa lækkað þar sem rafdrifnir bílar borga ekkert fyrir afnot af vegakerfinu.