Hvalfjarðargöngin dæmd varasöm
Í nýrri úttekt EuroTAP, systurstofnunar EuroRAP, á 26 veggöngum í Evrópu fá Hvalfjarðargöngin verstu einkunnina og þann dóm að þau séu varasöm. Hvalfjarðargöngin eru þó með þeim nýrri þeirra ganga sem tekin voru út að þessu sinni. Úttektin á Hvalfjarðargöngunum var gerð að frumkvæði FÍB og á næstu árum er fyrirhugað að gera sambærilega rannsókn á öðrum íslenskum jarðgöngum.
EuroTAP er eins og EuroRAP og EuroNCAP, samvinnuverkefni evrópsku bifreiðaeigendaklúbbanna, systurfélaga FÍB og úttektin á Hvalfjarðargöngunum var unnin af þýskum sérfræðingum í samvinnu við FÍB og Spöl.
EuroTAP stendur fyrir European Tunnel Assessment Program og er liður í verkefni bifreiðaeigendaklúbbanna innan FiA, að auka á öryggi vegfarenda með því að taka út vegi og nú veggöng og benda á slysagildrur og hvernig úr þeim megi bæta.
Sérfræðingarnir sem tóku út Hvalfjarðargöngin komu hingað fyrir milligöngu ADAC systurfélags FÍB í Þýskalandi. Sérfræðingarnir eru frá DMT Gmbh & Co. KG, sem er alþjóðlegt og sjálfstætt starfandi verkfræði- og tækniþjónustufyrirtæki. FÍB er neytendafélag íslenskra vegfarenda og aðili að EuroTAP verkefninu og sömuleiðis að EuroRAP (öryggisúttekt á vegum og umhverfi þeirra) og EuroNCAP (árekstursrprófun og öryggisúttekt á nýjum bílum) verkefnunum sem öll stuðla að auknu öryggi vegfarenda. FÍB hafði því frumkvæði að því að fá erlendu sérfræðingana til landsins til að taka Hvalfjarðargöngin inn í öryggisúttekt á evrópskum veggöngum. Úttektin fór fram, eins og lesa má hér, eða á nákvæmlega sama hátt og við öll hin göngin. Það er því misskilningur að samanburður við önnur veggöng erlendis geti verið villandi eins og talsmaður Spalar hefur látið í veðri vaka, eða þá að vinnubrögðum hafi á einhvern hátt verið áfátt eða ranglega farið með staðreyndir. Erlendu sérfræðingarnir komu til landsins í tvígang og í síðara skiptið kom einnig myndatökugengi sem tók bæði kvikmyndir og ljósmyndir í göngunum. Ólafur Kr. Guðmundsson varfaformaður FÍB og verkefnisstjóri EuroRAP á Íslandi starfaði með DMT að úttektinni og starfsmenn Spalar aðstoðuðu einnig við úttektina.
ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi er gríðarlega öflugt félag. Meðlimir eru 17 milljónir talsins og félagið rekur mjög öfluga tæknimiðstöð og tæknilega þjónustu og eina öflugustu og bestu vegaþjónustu veraldar, sem nær til félagsmanna ADAC en einnig annarra sem til hennar leita. ADAC árekstursprófar nýja bíla, bæði á eigin vegum og fyrir EuropNCAP. Auk þess prófar félagið hverskonar búnað fyrir bíla, t.d. öryggisbúnað fyrir börnin í bílnum og hefur starf ADAC í öryggismálum vegfarenda orðið til þess undanfarin ár og áratugi að bæta stórlega öryggi allra sem í bílum ferðast. ADAC er umsjónar- og framkvæmdaaðili EuroTAP verkefnisins og leggur til þess sérmenntaða verk- og tæknifræðinga í gæða- og öryggisstjórnun.
EuroTAP prófunin leiðir í ljós fjölmarga slæma ágalla á Hvalfjarðargöngunum sem þó eru trúlega bestu veggöng á Íslandi. Niðurstaðan nú hlýtur því að verða hvatning til Íslendinga almennt að betur verði að gera. Líf íslenskra vegfarenda og limir eru ekkert minna virði en þeirra sem um útlend veggöng og vegi fara. Æskilegast væri því að þeir sem málið varðar nýti sér niðurstöður úttektarinnar jákvætt til að bæta úr málum, enda er það höfuðtilgangur allra öryggisúttekta bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu.
Meðal þess sem bent er á að þurfi lagfæringar við í Hvalfjarðargöngunum er m.a. að lýsing í göngunum sé ónóg, ekki sé í þeim hátalarakerfi til að koma boðum til vegfarenda ef óhapp verður, ekki sé í göngunum samfellt eftirlit öryggismyndavéla. Ekki sé í þeim kerfi sem skráir sjálfvirkt slys eða neyðarköll. Of langt sé á milli neyðarsímanna og milli brunaslanga. Einn brunahani er í þeim og ekkert sjálfvirkt slökkvikerfi. Ef eldur kæmi upp í göngunum er ennfremur gagnrýnt að neyðarloftræsting sé ekki nægilega öflug. Neyðar- og viðbragðsáætlanir eru sagðar úreltar, Engar öryggisæfingar né heldur þjálfun starfsmanna fari fram, kaplar og raflagnir séu óvarðar gegn eldum í loftum ganganna og næsta atvinnumannaslökkvilið sé í 28 kílómetra fjarlægð. Listinn yfir það sem áfátt er, er lengri en sjá má hann með því að smella hér.
Hér er að finna heimasíðu EuroTAP. Á henni eru tenglar inn á flest það sem viðkemur jarðgangaprófuninni 2010.